Innlent

Á þriðja hundrað stúlkur skoðaðar í Barnahúsi

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Barnahús.
Barnahús. vísir/valli
Framkvæmdar voru skoðanir á 220 stúlkum á aldrinum 1-17 ára á árunum 2001 til 2010 vegna gruns um kynferðisofbeldi. Hins vegar er erfitt að fá rétta mynd af umfangi og tíðni kynferðisbrota gegn börnum vegna eðlis brotanna og leyndar sem oft hvílir yfir þeim.

Þetta eru niðurstöður rannsóknar á læknisfræðilegu mati vegna gruns um kynferðisofbeldi gagnvart stúlkum, sem greint er frá í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.

Umfangsmikið vandamál

Fram kemur í greininni að engin samræmd og alþjóðlega viðurkennd skilgreining sé til á kynferðisofbeldi gegn börnum. Öll kynferðisleg samskipti milli barns og fullorðins aðila megi skoða sem ofbeldi, þar sem barn hafi hvorki þroska né skilning til að samþykkja slíkar athafnir. Þá séu kynferðisbrot gegn börnum umfangsmikið vandamál og rótgróið í mannlegu samfélagi.

Þá segir að flestar skoðanir hafi farið fram innan mánaðar frá tilkynningu og að meðalbiðtíminn hafi verið 28 dagar. Meyjarhaftslýsingar hafi í 24 tilvikum verið metnar sem mögulegt kynferðislegt ofbeldi, þar með talið 21 tilvik rofins meyjarhafts hjá stúlku sem ekki var kynferðislega virk. Tvö kynfæravörtutilvik greindust og ein klamydíusýking.

Hjá stúlkum sem ekki voru kynferðislega virkar voru skoðanir eðlilegar hjá 85 prósent þeirra; 28 sýndu hugsanleg ummerki kynferðisofbeldis eða höfðu frábrigði með óljósa/umdeilda þýðingu. Efsta alvarleikastigi var lýst hjá 71 stúlku.

Lesa má greinina hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×