Lífið

True Blood-leikarinn Nelsan Ellis látinn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Nelsan Ellis var 39 ára þegar hann lést.
Nelsan Ellis var 39 ára þegar hann lést. Vísir/Getty
Bandaríski leikarinn Nelsan Ellis, sem þekktastur var fyrir hlutverk sitt sem Lafayette Reynolds í HBO-þáttröðinni True Blood, er látinn. Hann var 39 ára gamall. Umboðsmaður Ellis, Emily Gerson Saines, tilkynnti um andlát leikarans í dag. Hollywood Reporter greinir frá.

„Nelsan er látinn eftir að hjarta hans gaf sig,“ sagði Saines. „Hann var gríðarlega hæfileikaríkur og orða hans og nærveru verður ævinlega saknað.“

Ellis var þekktastur fyrir hlutverk sitt sem kokkurinn Lafayette Reynolds í vampíruþáttaröðinni True Blood sem sýnd var á sjónvarpsstöðinni HBO á árunum 2008-2014. Meðleikarar hans í þáttunum minntust leikarans á samfélagsmiðlum í dag, þar á meðal leikararnir Joe Manganiello og Kristin Bauer.

Ellis fór með hlutverk í fjölmörgum kvikmyndum og þáttaröðum, þar á meðal The Soloist, The Butler, Get on Up og Elementary. Hann fæddist árið 1977 í bænum Harvey í Illinois-fylki og útskrifaðist úr hinum virta listaháskóla Juilliard.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×