Lífið

Pepsi hættir við umdeilda auglýsingu

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Pepsi hefur beðið Kendall Jenner afsökunar.
Pepsi hefur beðið Kendall Jenner afsökunar. Mynd/Skjáskot
Pepsi hefur fjarlægt umdeilda auglýsingu af YouTube í kjölfar harðrar gagnrýni. Mun hún ekki fá frekari dreifingu. Independent greinir frá. 

Auglýsingin, sem skartar fyrirsætunni Kendall Jenner í aðalhlutverki, þykir meðal annars gera lítið úr mótmælum gegn lögregluofbeldi í garð svartra.

Í auglýsingunni er fylgst með fyrirsætu sem verið er að mynda. Þegar hópur fólks marserar framhjá með mótmælaskilti stekkur fyrirsætan til, rífur af sér hárkolluna og slæst í hópinn.

Að endingu sést fyrirsætan ganga að lögregluþjóni og gefa honum pepsídós.

„Við vorum að reyna að koma á framfæri almennum skilaboðum um frið, einingu og skilning. Við skutum greinilega yfir markið þarna og biðjumst velvirðingar á því. Við ætluðum ekki að gera lítið úr alvarlegum málefnum,“ segir meðal annars í yfirlýsingu frá Pepsi.

Kendall Jenner hefur einnig sætt gagnrýni vegna auglýsingarinnar.

„Við viljum einnig biðjast afsökunar á því að hafa sett Kendall Jenner í þessa aðstöðu,“ segir jafnframt í yfirlýsingunni.

Auglýsingin hefur ekki aðeins verið gagnrýnd fyrir að gera lítið úr mótmælum heldur að sama skapi fyrir að vera hálfgerð endurgerð á frægri ljósmynd sem tekin var á mótmælum í Baton Rouge í fyrra.

Hér fyrir neðan má sjá gagnrýni netverja á auglýsingunni.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×