Innlent

Björguðu tveimur skipverjum við Skagafjörð

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna málsins.
Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna málsins. Vísir/Anton
Landhelgisgæslunni barst um áttaleytið í kvöld neyðarkall frá báti á utanverðum Skagafirði. Leki var kominn að bátnum og útlit fyrir að skipverjarnir tveir þyrftu að yfirgefa hann. Samkvæmt tilkynningu frá Landhelgisgæslunni hefur mönnunum tveimur nú verið bjargað.

Öllum nærliggjandi skipum var beint að bátnum auk þess sem þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF og björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Skagaströnd og Siglufirði héldu á vettvang. Einnig var Herkúlesflugvél frá bandaríska flughernum send til leitar.

Herkúlesvélin var komin á vettvang tíu mínútum síðar og sveimaði yfir svæðinu uns mönnum hafði verið bjargað. Klukkan 21.18 kom færeyska loðnuskipið Finnur Fríði að björgunarbátnum og fáeinum mínútum síðar hafði mönnum tveimur verið bjargað um borð. Á sama tíma kom þyrla Landhelgisgæslunnar á staðinn og flutti hún mennina í land.

Í tilkynningu Landhelgisgæslunnar er áhöfnum þeirra skipa sem tóku þátt í björguninni þakkað fyrir skjót og fagleg viðbrögð. Sannast hafi hve mikilvægt er að sjómenn hlusti á neyðarrásina 16. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×