Innlent

Þingmaður Pírata boðar vantraust á forsætisráðherra

Heimir Már Pétursson skrifar
Þingmaður Pírata boðar að vantrauststillaga á Bjarna Benediktsson forsætisráðherra verði lögð fram vegna tafa hans á því að leggja fram skýrslu um aflandsfélög Íslendinga. Þá kvarta flutningsmenn frumvarpsins um sölu á áfengi í verslunum undan umræðunni um það mál.

Í morgun fór fram umræða á Alþingi um störf þingsins og eins og oftast áður lá þingmönnum ýmislegt á hjarta. Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata sagði þrjá núverandi ráðherra í vanda.

„Hæstvirtur umhverfisráðherra á eftir að mæta hér í ræðustól Alþingis og útskýra villandi svar sitt við fyrirspurn háttvirts þingmanns Oddnýjar Harðardóttur um tilmæli til nefndar sem heyrir undir ráðherra. Hæstvirtur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þarf að mæta hér í ræðustól Alþingis og og útskýra af hverju ráðherra hótaði sjómönnum lögum á verkfall þeirra. Það er ekkert fagnaðarefni þegar samningar nást undir slíkum hótunum og afarkostum. Sérstaklega þegar ráðherra var búinn að segja að ekki yrði gripið til lagasetningar,“ sagði Björn Leví.

Þá sagði þingmaðurinn Bjarna Benediktsson forsætisráðherra hafa leynt almenningi upplýsingum.

„Og þegar upp komst um það reyndi hann að ljúga til um að upplýsingarnar hafi ekki verið tiltækar fyrr en þing var farið heim. Feluleikurinn og lygin eru alvarlegt trúnaðarbrot. Ekki bara við þingið heldur við þjóðina alla,“ sagði Björn Leví.

Í umræðum um skýrsluna í vikunni hafi ráðherra skautað fram hjá spurningum um málið.

„Forsætisráðherra manar upp vantrauststillögu. Hún kemur. Fyrst þarf forsætisráðherra að svara þessum spurningum úr ræðustól Alþingis. Varða upplýsingarnar í skýrslunni sem hann faldi almannahag og braut ráðherra siðareglur? Ellegar er það vantraustvert í sjálfu sér að ráðherra veigri sér ítrekað undan að svara spurningum sem að honum eru beint á Alþingi,“ sagði Björn Leví.

Óþreyjufullir frumvarpsflytjendur

Áfengisfrumvarpið var rætt í sex klukkustundir á Alþingi í gær og ljóst að nokkrir þeirra þingmanna sem leggja frumvarpið fram óttast að það dagi uppi eins og fyrri frumvörp af svipuðum toga. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir  þingmaður og ritari Sjálfstæðisflokksins sagði tvískinnungs gæta hjá mörgum andstæðingum málsins á þingi sem fullyrtu að frumvarpið nyti ekki stuðnings meirihluta þingmanna.

„Ég held að flutningsmenn málsins væru fegnir að fá málið í atkvæðagreiðslu En hér er ítrekað komið í veg fyrir þinglega meðferð málsins. Það hefur aldrei komist í atkvæðagreiðslu. Af hverju ekki? Af hverju klárum við ekki bara málið? Sleppum því að orðlengja þetta ef þingmenn ætla að fella það. Þá geta þeir fellt það með bros á vör,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.