Innlent

Hlýjasta árið í 171 árs sögu veðurmælinga

Svavar Hávarðsson skrifar
Veðurmælingar hófust í Stykkishólmi haustið 1845 og aldrei hefur verið hlýrra.
Veðurmælingar hófust í Stykkishólmi haustið 1845 og aldrei hefur verið hlýrra. Fréttablaðið/Vilhelm
Það liggur nú fyrir að árið 2016 er það hlýjasta frá upphafi mælinga á Íslandi. Þetta sýna samfelldar veðurathuganir í Stykkishólmi nær 171 ár aftur í tímann eða til haustsins 1845.

Þetta kemur fram í skrifum þeirra Halldórs Björnssonar, hópstjóra loftslagsrannsókna, og Trausta Jónssonar, sérfræðings í veðurfarsrannsóknum, hjá Veðurstofu Íslands.

Mæliröðin er lengsta órofna mæli­röð á Íslandi og á tímabilinu lýsa þeir Halldór og Trausti sögu hitafars í Stykkishólmi, og líklega á landinu öllu, þannig að veðurfar var kalt á síðari hluta 19. aldar og ekki tók að hlýna verulega fyrr en á þriðja áratug 20. aldar. Hlýindakaflanum lauk á sjöunda áratugnum en þá tók við kuldaskeið fram undir lok aldarinnar. Síðan þá hefur hlýnað og eru síðustu ár með þeim hlýjustu frá því mælingar hófust og síðasta ár það allra hlýjasta.

Á hnattræna vísu var árið 2016 einnig hlýjasta ár síðan farið var að mæla hita nægilega víða til þess að leggja megi traust mat á meðalhita jarðar, skrifa þeir Halldór og Trausti.

„Eðlilegt er að líta á þá hlýnun sem orðið hefur í Stykkishólmi síðan mælingar hófust, sem sambland af áratugalöngum hitasveiflum og hnattrænni hlýnun. Meðan ekki dregur úr hnattrænni hlýnun er því líklegt að til lengri tíma litið hlýni áfram í Stykkishólmi þótt náttúrulegar sveiflur í hitafari kunni að draga úr eða auka við hlýnun nokkra áratugi í senn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×