Innlent

Ferðamenn úti á ísnum á Jökulsárlóni: „Maður fær fyrir hjartað þegar maður sér fólk haga sér svona“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ferðamenn úti á ísnum á Jökulsárlóni í dag.
Ferðamenn úti á ísnum á Jökulsárlóni í dag. mynd/gylfi blöndal
„Ég kem nú ekki oft hingað með ferðamenn, kannski einu sinni í mánuði en nánast í hvert einasta skipti sé ég fólk þarna úti á jökunum og jafnvel með börn með sér,“ segir Gylfi Blöndal, verkefnastjóri hjá IceLimo Luxury Travel, sem tók meðfylgjandi mynd við Jökulsárlón í dag þar sem hann var á ferð með bandarískum ferðamönnum.

Eins og sjá má á myndinni eru þó nokkrir ferðamenn úti á ísjökunum á lóninu en slíkt er háskaleikur en lónið jú jökulkalt.

„Það er afskaplega erfitt og leiðinlegt að sjá þetta því maður fær fyrir hjartað þegar maður sér fólk haga sér svona en að sama skapi er erfitt að standa yfir fólki og skamma það, sérstaklega þegar maður er sjálfur að vinna og er að passa öryggi síns hóps,“ segir Gylfi sem kveðst 99 prósent viss um að ferðamennirnir hafi verið á eigin vegum. Leiðsögumenn sem hann þekki brýni fyrir sínum hópum að hætturnar leynist víða og að það sé til að mynda stórhættulegt að fara út á ísinn á Jökulsárlóni.

Börn á hálum ís við Jökulsárlón í febrúar í fyrra.mynd/owen hunt
Öryggi ferðamanna hér á landi hefur verið mjög í umræðunni seinustu vikur og sérstaklega síðustu daga í kjölfar þess að kínverskur ferðamaður lét lífið í Reynisfjöru eftir að alda tók hann á haf út. Þá er þetta ekki í fyrsta skipti sem fluttar eru fréttir af ferðamönnum úti á jökunum á Jökulsárlóni.

Fyrir um það bil ári var greint frá eftirlitslausum börnum sem voru hlaupandi um á ísnum við lónið og rætt við leiðsögumanninn Owen Hunt sem þar hafði verið á ferð með hóp af ferðamönnum.

„Þennan klukkutíma sem við vorum þarna fóru líklega fimmtán manns út á ísinn,“ sagði Owen þá í samtali við Vísi. Þá stöðvaði hann sjálfur kínverska fjölskyldu á leið sinni út á ísinn með lítið barn.

Þá er mörgum eflaust í fersku minni tónlistarmyndband kanadíska tónlistarmannsins Justin Bieber við lagið I'll Show You. Myndbandið er allt tekið upp hér á landi og vakti mikla athygli en söngvarinn baðar sig meðal annars í Jökulsárlóni. Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, sagði þá í samtali við Vísi að þó að hegðun Bieber væri ekki til fyrirmyndar þá væri myndbandið engu að síður frábær landkynning. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×