Lífið

Donald Trump hjólar í Alec Baldwin og félaga

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Trump fannst sjónvarpsþátturinn ekkert fyndinn.
Trump fannst sjónvarpsþátturinn ekkert fyndinn. mynd/getty
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, lýsti yfir gremju sinni á Twitter í dag vegna atriðis í þættinum Saturday Night Live sem sýndur var á bandarísku sjónvarpsstöðinni NBC í gærkvöldi.

Í þættinum gerði leikarinn Alec Baldwin stólpagrín að Trump en hann hefur á síðastliðnum vikum farið á kostum sem eftirherma Trumps. Þetta er ekki heldur í fyrsta sinn sem Trump fettir fingur út í Alec Baldwin og félaga í SNL.

Innslagið sem um ræðir sýnir Trump funda með hinu og þessu fólki um ýmis mál sem Trump gaf loforð um í kosningabaráttu sinni. Smátt og smátt verður honum ljóst að hann þurfi að stjórna heilli þjóð og hann virðist ekki hafa hugmynd um hvernig hann ætlar að gera það.

Til dæmis er Trump sýndur funda með fyrirmenni í bandaríska hernum sem vill ræða við hann um leiðir til þess að hafa hendur í hári ISIS. Trump virðist gera sér ljóst á þessu augnabliki að hann hafi ekki hugmynd um hvernig hann ætlar að berjast við ISIS og gengur að fartölvu sinni og „gúglar“ það.

Alec Baldwin hefur farið á kostum í hlutverki Donalds Trump.mynd/getty
Í tísti Trumps um þáttinn segir: „Ég horfði á hluta úr SNL í gærkvöldi. Þetta er algjörlega einhliða, hlutdrægur þáttur – ekkert fyndinn. Jafn tími fyrir okkur?“

Með „jöfnum tíma“ vísar Trump til fjölmiðlaumfjöllunar um sig í aðdraganda kosninganna en honum fannst sem fjölmiðlar hefðu sniðgengið sig og fjallað í mun ríkari mæli um andstæðing hans, Hillary Clinton.

Alec Baldwin svaraði um hæl með tísti en í því sagði: „Jafn tími? Kosningarnar eru búnar. Það er enginn jafn tími. Núna skaltu reyna að vera forseti, fólk mun sýna viðbrögð. Punktur.“

Trump var afar virkur á Twitter í dag og hjólaði í fleiri en Saturday Night Live. Hann var til dæmis harðorður í garð leikenda leiksýningarinnar Hamilton en einn leikara sýningarinnar jós skammaryrðum yfir Mike Pence, varaforsetaefni Trumps þegar hann mætti í leikhús í gær. 

Sjá einnig: Stuðningsmaður Trump truflaði sýningu á Hamilton

Hér fyrir neðan má sjá tístið hans Trumps og nokkur af svörum Baldwins. 


Tengdar fréttir

Baldwin frábær sem Donald Trump í SNL

Alec Baldwin mætti í Trum-gervi og fór leikandi létt með að ná fram mörgu því sem einkenndi kappræður hans og Hillary Clinton fyrr í vikunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×