Innlent

Ólafur Egill þrýstir á borgina að lengja opnunartíma sundlauga um helgar

Atli Ísleifsson skrifar
Ólafur Egill er fastagestur í Vesturbæjarlaug.
Ólafur Egill er fastagestur í Vesturbæjarlaug. Vísir/Anton/Hanna
Ólafur Egill Egilsson leikari hefur efnt til undirskriftarsöfnunar þar sem þess er krafist að Reykjavíkurborg lengi opnunartíma sundlauga um helgar.

Í færslu á Facebook-síðu sinni segist Ólafur vera einn af fastagestum Vesturbæjarlaugar og þangað hafi hann farið alla sína barnæsku með ömmum sínum og öfum, foreldrum. Nú fari hann hins vegar í laugina með börnum sínum og vonandi börnum þeirra þegar fram í sækir.

„Eitt það allra besta sem ég veit er kvöldsund. Synda dálítið eða bara slaka á eftir daginn, taka jafnvel náttfötin með og svífa svo inn í draumalöndin... Þess vegna hefur mér lengi þótt alveg glatað að allar laugar aðrar en Laugardalslaug loka klukkan 20:00 á föstudögum og 18:00 um helgar,“ segir Ólafur.

Hann segist lengi hafa talað um að efna til undirskriftarsöfnunar en hafi nú ákveðið að láta slag standa. „Skorum á Reykjavíkurborg að lengja opnunartíma lauganna á föstudögum, laugardögum og sunnudögum. Laugarnar okkar eru frábærar, njótum þeirra, líka um helgar!“

664 mann höfðu skrifað undir söfnunina klukkan 11:15. Heimasíðu undirskriftarsöfnunarinnar má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×