Innlent

Senda á Eyjólf til Noregs eftir þrjár vikur

Jakob Bjarnar skrifar
Elva Christina er gersamlega niðurbrotin og hefur grátið í allan dag, eða allt síðan henni var kynnt niðurstaðan.
Elva Christina er gersamlega niðurbrotin og hefur grátið í allan dag, eða allt síðan henni var kynnt niðurstaðan. visir/anton brink
Hæstiréttur staðfestir niðurstöðu héraðsdóms í máli ungs drengs sem norsk barnaverndaryfirvöld vilja kalla til sín. Stundin greindi frá þessu nú fyrir stundu.

Vísir hefur fjallað ítarlega um málið sem snýst um það að Elva Christina, móðir fimm ára gamals drengs, var svipt forræði yfir syni sínum Eyjólfi úti í Noregi. Til stóð og til stendur að senda hann til vandalausra norskra í fóstur. Amma drengsins og Elva flúðu til Íslands í kjölfar þess úrskurðar. Faðir drengsins er búsettur úti í Danmörku og hefur ekki haft bein afskipti af málinu til þessa.

Elvu Christinu var kynnt þessi niðurstaða í dag og segist hún hafa grátið samfleytt síðan hún fékk þessi erfiðu tíðindi.

Kvíðir því að segja syni sínum hvað stendur til

„Ég er alveg í rusli. Ég hef eiginlega bara grátið síðan ég fékk að vita þetta. Ég fékk símtalið í dag. Að það væri búið að dæma í þessu. Þetta þýðir það að þau eru að fara að koma og ná í hann 4. desember,“ segir Elva Christina og það fer ekkert á milli mála að hún er alveg niðurbrotin.

Hún telur nú öll sund lokuð þó Bragi Guðbrandsson hjá Barnaverndarstofu sé að vinna að samkomulagi við norsk barnaverndaryfirvöld um að flytja málið til Íslands. Elva Christina segist hins vegar mjög svartsýn á að eitthvað slíkt sé inni í myndinni þegar norsku barnaverndaryfirvöldin, sem eru ákaflega stíf á meiningunni, muni fallast á slíkar tilhliðranir. „Ég veit að þegar þau hafa gengið svona langt og unnið mál þá verða þau ekki við slíkum óskum. Ég á mjög bágt með að trúa því. Það særir mig mest að þetta þýðir að ég þarf að fara að segja honum hvað er í gangi og þetta brýtur alveg í mér hjartað.“

Ekkert heyrist frá ráðuneytinu

Samstöðufundur hefur verið haldinn á Austurstræti vegna málsins og fjölmargir, innan sem utan þings, hafa skorað á Ólöfu Nordal innanríkisráðherra að láta málið til sín taka. En Elva segist engan stuðning hafa fengið úr þeirri áttinni, hún hefur ekkert heyrt frá ráðuneytinu.

„Þetta var svo mikið sjokk, ég hélt svo í vonina. Þetta var komið svona langt. Og svo fæ ég nú að vita þetta þremur vikum áður en hann á að fara. Ég er gersamlega í rusli,“ segir Elva Christina.


Tengdar fréttir

Reyna allt svo Eyjólfur verði ekki sendur burt

Íslensk barnaverndaryfirvöld reyna nú að ná samningum við norsk yfirvöld svo íslenski drengurinn Eyjólfur Kristinn Elvuson verði ekki sendur til Noregs á fósturheimili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×