Lífið

Munir Herkastalans seldir á laugardag

Sara McMahon skrifar
Herkastalinn var byggður árið 1916 af meðlimum Hjálpræðishersins.
Herkastalinn var byggður árið 1916 af meðlimum Hjálpræðishersins. Fréttablaðið/GVA
Fólki gefst færi á að ganga um hús Hjálpræðishersins við Kirkjustræti 2 á laugardag og kaupa þar ýmsa muni, til dæmis rúm, kojur, rúmföt, stóla, borð og búsáhöld. Tilefnið er flutningur Hjálpræðishersins úr Herkastalanum, en húsinu verður breytt í lúxushótelíbúðir.

Herkastalinn var reistur af meðlimum Hjálpræðishersins árið 1916 sem sjómannaheimili. Húsið, sem er 1.600 fermetrar að stærð, þótti einstakt á sínum tíma og þykir enn í dag meðal áhugaverðustu bygginga miðbæjarins.

„Á einum tímapunkti var hér rekið gistiheimili og gistiskýli fyrir heimilislausa, en það gekk ekki vel að blanda þessu tvennu saman. Það eru mörg ár síðan við hættum að geta tekið á móti heimilislausum í gistingu og byrjuðum að reka þetta sem gistiheimili,“ útskýrir flokksleiðtoginn Ingvi Kristinn Skjaldarson er hann leiðir blaðamann og ljósmyndara um ranghala hússins.



Það kennir ýmissa grasa í Herkastalanum.GVA
Samtökin munu reisa nýtt hús við Mörkina þar sem áhersla verður lögð á starfsemi fyrir börn og eldri borgara. Í húsinu verður meðal annars verkstæði og kaffihús sem mun ekki aðeins nýtast félagsmönnum heldur einnig fólkinu í hverfunum í kring.

Aðspurður hvort flutningunum muni fylgja söknuður, segir Ingvi: „Það fer eftir því hvern þú spyrð. Húsið er orðið gamalt og hætt að þjóna sínum tilgangi, aðgengi fyrir fatlaða er ekkert, þannig að ég mun ekki sakna þess.“

Markaðurinn hefst klukkan 10 og stendur til klukkan 18. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×