Innlent

Sjálfstæðismenn í basli með tölurnar í Suðurkjördæmi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra berst við Pál Magnússon um fyrsta sætið í kjördæminu.
Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra berst við Pál Magnússon um fyrsta sætið í kjördæminu. Vísir/Anton Brink
Útlit er fyrir að fyrstu tölur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi birtist ekki fyrr en í fyrsta lagi á miðnætti. Talning fer fram á Selfossi og hefur gengið illa sé miðað við upplýsingar frá flokknum í kvöld.

Beðið er eftir fyrstu tölum með töluverðri eftirvæntingu þar sem Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra og Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri, etja kappi.


Kjörstaðir í Suðurkjördæmi lokuðu klukkan 18 eins og í Suðvesturkjördæmi þar sem úrslit eru ljós. Mikið hefur verið fjallað um úrslitin þar sem Bjarni Benediktsson hlaut yfirburðarkosningu en engin kona náði inn á lista efstu fjögurra. 

Fyrstu tölur í Suðvesturkjördæmi voru birtar í kvöldfréttum RÚV klukkan 19 en tilkynnt að von væri á tölum úr suðrinu síðar í kvöld. Í framhaldinu hrundi vefur flokksins, XD.is, og tilkynnt að tölur úr Suðurkjördæmi kæmu ekki strax.

Á ellefta tímanum var svo tilkynnt að fyrstu tölur í kjördæminu myndu birtast klukkan 23. Nú er hins vegar ljóst, af nýjustu tilkynningu Sjálfstæðismanna á Twitter, að fyrstu tölur koma ekki fyrr en á miðnætti. 

Ekki liggur fyrir hvers vegna svo mikil töf hefur orðið á talningu en ekki náðist í Þórð Þórarinsson, framkvæmdastjóra flokksins, við vinnslu fréttarinnar.

Sjálfstæðismenn hafa húmor fyrir töfinni eins og sjá má á þeirra nýjasta tísti.

Fólk er virkilega farið að lengja eftir tölum úr Suðurkjördæmi.

Uppfært klukkan 01:15

Fyrstu tölur úr Suðurkjördæmi voru birtar um klukkan hálf eitt. Páll Magnússon hefur nokkuð öruggt forskot í fyrsta sæti. Stuðningsmenn hans fagna í Eyjum eins og lesa má nánar um hér.

Ásmundur Friðriksson er í öðru sæti, Vilhjálmur Árnason í því þriðja og Ragnheiður Elín fjórða.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×