Lífið

Bieber tók hokkíkylfurnar með, leigði Skautahöllina en mætti svo ekki

Sunna Kristín HIlmarsdóttir skrifar
Hér sjást íshokkíkylfurnar sem Bieber tók með til landsins.
Hér sjást íshokkíkylfurnar sem Bieber tók með til landsins. vísir/vilhelm
Kanadíska poppgoðið Justin Bieber tók Skautahöllina í Laugardal á leigu í gærkvöldi en mætti síðan ekki. Þetta kemur fram í frétt á vef DV.

Blaðamaður Vísis hafði samband við Skautahöllina en sá sem svaraði í síma þar vildi ekkert tjá sig um málið og sagðist bundinn trúnaði. Líkt og sást í beinni útsendingu Vísis í gær þegar Bieber lenti í Reykjavík tók hann með sér íshokkíkylfur hingað til lands og því má fastlega gera ráð fyrir því að hann hafi ætlað að spila hokkí í Skautahöllinni.

Bieber tók höllina á leigu frá klukkan 21 í gærkvöldi en færa þurfti til æfingu hjá hóp stúlkna sem æfa listdans á skautum. Eftir því sem Vísir kemst næst voru um tíu til tólf stelpur sem gátu ekki æft í Skautahöllinni í gærkvöldi á tilsettum tíma en þær fá aðra æfingu á öðrum tíma, annað hvort núna um helgina eða í næstu viku.

Það er mismunandi eftir stærð og umfangi hvað það kostar að leigja Skautahöllina í Laugardal. Sé höllin til dæmis tekin á leigu á laugardagskvöldi kostar fyrsti tíminn 35 þúsund krónur og annar tíminn 30 þúsund krónur. Ef stórir hópar taka höllina síðan á leigu, 200-300 manns til að mynda, þá fer verðið eftir því hvað kemur inn af tekjum á móti, til dæmis með leigu á skautum og öðrum búnaði.

Eins og varla hefur farið fram hjá mörgum heldur Bieber tvenna tónleika í Kórnum í Kópavogi, þá fyrri í kvöld og þá seinni annað kvöld.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.