„Þetta var bara mjög skemmtilegt. Það kom mér skemmtilega á óvart hversu góðar viðtökurnar voru og hvernig fólk tók þátt með okkur,“ segir Logi Pedro í samtali við Vísi.
Aðspurður segir hann undirbúninginn fyrir Bieber ekki hafa verið mjög frábrugðinn undirbúning fyrir hverja aðra tónleika. „Við tókum ákvarðanir um hvað við vildum gera, hvaða lög við vildum taka. Við útsettum intro og eitthvað svoleiðis. Frekar hefðbundið.“
Nú sagðirðu á Twitter að líklega væri auðveldara að sænga hjá páfanum en að hitta Justin Bieber, var allt lokað og læst?
„Nei nei, alls ekki. Ég segi bara svona. Við höfðum lítinn áhuga á að vera troða okkur eitthvert, þannig að við vorum ekkert að pæla í því. En ég geri ráð fyrir því í ljósi þess að hann er stærsta poppstjarna í heiminum að það sé helvíti mikil gæsla.“
@gudnylt örugglega auðveldara að sænga hjá páfanum.
— Logi Pedro (@logifknpedro) September 8, 2016
„Við vitum ekki betur en að þetta hafi verið valið úti. Þau voru með ákvörðunarvald og grænt ljós fengið þaðan. En hvernig ferlið átti sér stað í rauninni hef ég ekki hugmynd um. En við sóttumst ekki eftir því sérstaklega. Við sögðum bara að þau mættu hafa okkur í huga, fórum ekki í neina herferð eða svoleiðis,“ segir Logi Pedro.
Logi segir þá hafa fengið jákvæð viðbrögð frá teymi Bieber og búist við góðri stemningu í kvöld.
„Það leit út fyrir að vera uppselt í gær. Það eru kannski einhverjir til viðbótar í kvöld, en í stóra samhenginu er það ekkert. Þannig að ég held að þetta verði bara round tvö af fjöri.“
Sturla Atlas og 101 Boys stíga á svið í kórnum klukkan sjö í kvöld.