Lífið

Georg prins í fyrsta sinn á frímerki í tilefni 90 ára afmælis langömmu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Karl prins, Elísabet II Englandsdrottning, Georg prins og Vilhjálmur hertogi í myndatöku fyrir frímerkið.
Karl prins, Elísabet II Englandsdrottning, Georg prins og Vilhjálmur hertogi í myndatöku fyrir frímerkið. vísir/getty
Elísabet II Englandsdrottning fagnar 90 ára afmæli sínu á morgun og verður því fagnað með ýmsum hætti á Bretlandi. Þannig verða gefin út tíu ný frímerki í tilefni afmælisins en Georg prins, sonur Vilhjálms hertoga og Katrínar hertogaynju, og sá þriðji í röðina til að erfa krúnuna er til að mynda í fyrsta sinn á frímerki.

Georg er á frímerkinu ásamt langömmu sinni, drottningunni, afa sínum, Karli prins, og svo pabba, Vilhjálmi. Georg litli þurfti að standa uppi á kubbi til að vera nokkurn veginn í sömu hæð við pabba, afa og langömmu.

Sex þeirra frímerkja sem gefin verða út í tilefni afmælisins.vísir/getty
Hátíðahöldin byrja annars í dag, degi fyrir afmælið, með opnun sýningar Konunglegu póstþjónustunnar í Windsor-kastala. Elísabet verður viðstödd opnunina þar sem kór póstþjónustunnar mun meðal annars taka lagið.

Á morgun mun Elísabet svo fara í göngutúr um landið í kringum Windsor-kastala ásamt eiginmanni sínum, Filippusi prins. Í göngutúrnum mun minnisvarði um það sem kallað er gönguleið drottningarinnar verða afhjúpaður en gönguleiðin er 6,3 kílómetra löng og tengir saman 63 áhugaverða staði í Windsor.

Annað kvöld mun drottningin síðan kveikja ljós í vita en kveikt verður á um 900 vitum í Bretlandi og víðs vegar um heiminn til að fagna afmælinu.

Á föstudag munu síðan Barack Obama, Bandaríkjaforseti, og Michelle Obama, kona hans, borða hádegismat með Elísabetu í Windsor-kastala.

Enginn annar breskur þjóðhöfðingi hefur verið lengur við völd en Elísabet en hún hefur verið drottning síðan 1952. Hún fagnar tveimur afmælum á hverju ári, annars vegar fæðingardegi sínum, 21. apríl, og svo deginum sem hún var krýnd drottning, 2. júní.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×