Enski boltinn

Tottenham lenti undir gegn Gylfa og félögum en vann | Sjáðu mörkin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tottenham heldur í við Leicester í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar eftir að hafa unnið 2-1 sigur á Swansea á heimavelli sínu í dag.

Swansea komst reyndar yfir með marki Alberto Paloschi á nítjándu mínútu en þetta var hans fyrsta mark fyrir félagið eftir að hann kom í janúar.

En Tottenham tryggði sér sigur með mörkum þeirra Nacer Chadli og Danny Rose á síðustu 20 mínútum leiksins og er því enn tveimur stigum á eftir Leicester á toppi deildarinnar. Fram að því hafði Lukasz Fabianski varið nokkrum sinnum glæsilega í marki Swansea.

Arsenal er enn í þriðja sæti en er nú þremur stigum á eftir Tottenham eftir tap liðsins gegn Manchester United í dag, 3-2.

Gylfi Þór Sigurðsson spilaði allan leikinn gegn sínu gömlu félögum í Swansea og hann fékk frábært færi strax á fjórðu mínútu eftir undirbúning Paloschi. Hugo Loris, markvörður Tottenham, varði hins vegar glæsilega frá honum. Gylfi átti svo tvær tilraunir að marki úr aukaspyrnum en náði ekki að skora á sínum gamla heimavelli.

Sigurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir Tottenham sem hefur ekki orðið enskur meistari síðan 1960. Liðið er með besta markahlutfall allra liða í ensku deildinni og getur með þessu áframhaldi gert harða atlögu að meistaratitlinum í vor.

Chadli jafnar: Rose kemur Spurs yfir:



Fleiri fréttir

Sjá meira


×