Innlent

Inn- og útflutningur gæti stöðvast

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Allur inn- og útflutningur til og frá landinu stöðvast uppúr helginni náist ekki samningar við yfirmenn á farskipum fyrir þann tíma. Kjaradeila þeirra er í algjörum hnút eftir árangurslausan samningafund í dag.Félag vélstjóra og málmtæknimanna og Félag skipstjórnarmanna samþykktu bæði í byrjun mánaðarins að boða til verkfalls skipstjóra, stýrimanna og vélstjóra á kaupskipum í millilandasiglingum. Verkfallið skellur á miðnætti á mánudaginn ef ekki nást kjarasamningar fyrir þann tíma.Verkfallið nær til fimm skipa Eimskips og tveggja skipa Samskipa. Fundað hefur verið stíft í kjaradeilu félaganna og Samtaka atvinnulífsins undanfarið. Í dag hittust svo samninganefndir vélstjóra og Samtaka atvinnulífsins í Karphúsinu. Fundurinn reyndist árangurslaus og var nýr ekki boðaður fyrr en á mánudaginn.„Eins og hlutirnir eru að ganga núna þá gengur þetta mjög hægt og svo sem ekkert í kortunum sem að bendir til þess að annað en að þetta blessaða verkfall skelli á miðnætti 1. febrúar,“ segir Guðmundur Ragnarsson formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna.Guðmundur segir mikið bera á milli deiluaðila og margra mánaða viðræður litlu hafa skilað. Hann segir verkfallið koma til með að hafa mikil áhrif þar sem allur inn- og útflutningur til og frá landinu stöðvast ef til þess kemur. „Ég held að áhrifin verði mjög fljót að segja til sín,“ segir Guðmundur Ragnarsson.

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.