Lífið

Emil um föður sinn heitinn: „Ég náði honum varla áður en hann dó“

Stefán Árni Pálsson skrifar
„Ég kem oft hingað í kirkjuna og fer með bænir og kveiki á kerti fyrir pabba,“ segir knattspyrnumaðurinn Emil Hallfreðsson sem var til umfjöllunar í síðasta þætti sjónvarpsþáttaraðarinnar Atvinnumennirnir okkar í umsjón Auðuns Blöndal á Stöð 2 í gærkvöldi.

Emil leikur knattspyrnu með ítalska liðinu Hellas Verona og hefur verið þar frá árinu 2010. Knattspyrnumaðurinn er nokkuð trúaður eins og kom fram í þættinum en faðir hans, Hallfreður Emilsson, lést fyrir aldur fram í september árið 2014.

„Mér finnst rosalega gott að koma hingað minnast hans,“ segir Emil en Hallfreður greindist með krabbamein í brisi og lést sjö mánuðum síðar.

Sjá einnig: Emil lét húðflúra mynd af látnum föður sínum á handlegginn

„Ég áttaði mig kannski aldrei á því hversu veikur hann var. Hann vildi ekki að ég myndi hafa áhyggjur af honum og ég náði honum varla áður en hann dó, ég kom bara til landsins rétt áður. Ég hélt aldrei að hann myndi deyja, ég trúði svo mikið að þetta myndi fara vel. Ég kom bara nokkrum klukkustundum áður en hann fór.“

Emil segir að læknarnir hafi talið að faðir hans ætti fjörutíu daga ólifaða.

Emil opnaði sig hjá Auðunni Blöndal í gærkvöldi.vísir
„Svo breyttist það allt í einu í eina viku og síðan bara í nokkra daga. Við vorum ótrúlega nánir og vorum í raun bara bestu vinir. Ég talaði daglega við hann á „face-time“ og í raun alveg frá því að ég fór út í atvinnumennsku. Ég á honum ótrúlega mikið að þakka og hann fór alveg alla leið með mér í boltanum.“

Landsliðsmaðurinn segist hugsa til pabba sína á hverjum einasta degi.

„Oft hugsa ég til hans mörgum sinnum á dag,“ segir Emil sem lét húðflúra andlitsmynd af föður sínum á handlegginn á sér.

„Mér fannst mikilvægt að fá mér það og þetta minnir mig á hann. Ég vildi sýna honum þakklæti fyrir allt sem hann hefur gert fyrir mig í mínu lífi. Ég á honum mikið að þakka og þá fyrir það hvernig ég er í dag, í lífinu og í boltanum.“

Þátturinn í gær vakti gríðarlega athygli hér á landi og skapaðist mikil umræða um þennan magnaða knattspyrnumann á Twitter. Hér að neðan má skoða hvað Íslendingar höfðu um Emil Hallfreðsson og hans fjölskyldu að segja.


Tengdar fréttir

Lifir eins og kóngur í Verona

Knattspyrnumaðurinn Emil Hallfreðsson verður til umfjöllunar í næsta þætti sjónvarpsþáttaraðarinnar Atvinnumennirnir okkar í umsjón Auðuns Blöndal. Í stuttu broti úr þættinum má sjá þegar Emil og eiginkona hans bjóða Auðunni Blöndal út að borða og fá þau ekkert venjulegt borð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×