Innlent

Meirihluti svarenda í könnun Siðmenntar hlynntur líknandi dauða

Birgir Olgeirsson skrifar
Niðurstaða könnunarinnar varðandi líknandi dauða var afgerandi að sögn Siðmenntar og kom félaginu á óvart.
Niðurstaða könnunarinnar varðandi líknandi dauða var afgerandi að sögn Siðmenntar og kom félaginu á óvart. Mynd/Getty/Siðmennt
Þrír af hverjum fjórum sem tóku þátt í könnun Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi, um lífsskoðanir Íslendinga eru hlynntir því að leyfa líknandi dauða en aðeins um sjö prósent andvíg. 

Siðmennt fól Maskínu að framkvæma könnun í nóvember 2015 um lífsskoðanir Íslendinga þar sem lagðar voru fyrir átján spurningar. Könnunin var lögð fyrir Þjóðargátt Maskínu á netinu og fór fram 13. til 25. nóvember 2015. Íslendingar á aldrinum 18-75 ára af öllu landinu tóku þátt.

Svarendur voru 821 og voru gögnin vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu í samræmi við upplýsingar úr Þjóðskrá. Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að veraldlegar lífsskoðanir séu í mikilli sókn á Íslandi. Staða þjóðkirkjunnar er afar veik ef mið er tekið af niðurstöðum könnunarinnar og sífellt færri Íslendingar hlynntir afskiptum hins opinbera af trú og lífsskoðunum.

Meirihlutinn hlynntur líknandi dauða

Í könnuninni voru þátttakendur spurðir hvort þeir væru hlynntir eða andvígi því að einstaklingur geti fengið aðstoð við að binda endi á líf sitt ef hann er haldinn ólæknandi sjúkdómi, svokallaður líknandi dauði. Niðurstaðan var afgerandi og kom félaginu nokkuð á óvart. Þrír af hverjum fjórir hlynntir en sjö prósent andvíg.

Samkvæmt henni segjast 46 prósent Íslendinga vera trúuð.Vísir/Getty
46 prósent Íslendinga trúaðir

Siðmennt segir að sú staðhæfing að íslenska þjóðin sé kristin þjóð ekki í samræmi við niðurstöðu könnunarinnar. Samkvæmt henni segjast 46 prósent Íslendinga vera trúuð, tæp 30 prósent segjast ekki vera trúuð og 23,7 prósent segja ekki geta sagt til um hvort þau séu trúuð eða ekki. 

Af þeim 46 prósentum sem sögðust trúuð í þessari könnun sögðust 36 prósent þeirra trúa helstu kenningum kirkjunnar um guð, eilíft líf og upprisuna. Fjórðungur svarenda telur sig eiga mikla samleið með þjóðkirkjunni en á bilinu 46-47% telja sig eiga litla eða enga samleið með henni.

Tæplega helmingur fylgjandi aðskilnaði

Tæplega helmingur svarenda er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju en naumlega 19 prósent andvíg honum. Hartnær þriðjungur er beggja blands. Þegar þátttakendur voru spurðir hvort ríkið eigi að styrkja trúfélög þá voru 29 prósent þeirra sátt við núverandi fyrirkomulag, það er að ríkið styrki þjóðkirkjuna hlutfallslega meira en önnur trú- og lífsskoðunarfélög, á meðan 25% telja að ríkið eigi að styrkja öll trúar- og lífsskoðunarfélög hlutfallslega jafnt. Langstærsti hópurinn  eða 46%, telur að ríkið eigi ekki að styrkja trú- eða lífsskoðunarfélög.

Meirihlutinn vill ekki skrá um lífsskoðanir fólks

Þjóðkirkjan er fjölmennasta trúfélag landsins. Fram til ársins 2013 voru nýfædd börn sjálfkrafa skráð í trúfélag móður en í kjölfar lagabreytinga það ár þurfa foreldrar að tilheyra sama trúfélagi svo barnið skráist sjálfkrafa. Í könnuninni kemur fram að meirihluti eða 60% vill ýmist að ríkið haldi ekki skrá um lífsskoðanir fólks (29,9%) eða að foreldrar þurfi að skrá börn sín sérstaklega (29,6%). Enn sker yngsti aldurshópurinn sig úr en 90% þeirra styðja breytt fyrirkomulag.

Af þeim sem sögðust trúaðir sögðust rúm 60 prósent trúa á Guð.Vísir/Getty
60 prósent vilja ekki þjóðkirkjuákvæði

Þegar spurt er hvort þjóðkirkjuákvæði eigi heima í stjórnarskrá Íslands svarar 61% þeirra sem taka afstöðu því neitandi. Siðmennt segir að leitast hafi verið eftir við að setja spurninguna fram á skýrari og hlutlausari hátt en gert var í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 en þá töldu 57% að ákvæði ætti að vera í stjórnarskrá.

Átján prósent telja Guð hafa skapað heiminn

Þá voru þátttakendur spurði hvernig þeir héldu að heimurinn hefði orðið til. 

Tæp 62 prósent sögðu heiminn hafa orðið til í Miklahvelli (Big Bang), tæp átján prósent töldu Guð hafa skapað heiminn, 8,3 prósent sögðust ekki vita það eða höfðu ekki skoðun á því og 12,1 prósent töldu annað hafa orðið til þess að heimurinn varð til. Þau svör má lesa á blaðsíðu 15 í PDF-skjalinu sem sýnir niðurstöður könnunarinnar og fylgir með þessari grein. 

61 prósent trúaðra trúa á Guð

Þeir þátttakendur sem sögðust vera trúðir voru spurðir hvert af eftirfarandi svörum kemst næst því að lýsa skoðun þeirra á tilvist Guðs eða æðri máttar. Sögðust 61,1 prósent trúa á Guð, 25,8 prósent sögðust hafa enga vissu fyrir því að Guð/æðri máttur sé til en útiloka það ekki, 4,3 prósent töldu æðri mátt annan en Guð til, 2,9 prósent töldu ekki annan Guð til en sá sem manneskjan hefur búið til, 5,9 prósent sína skoðun aðra.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.