Lífið

Sólveig Eva á Comic Con

Sólveig Gísladóttir skrifar
Sólveig Eva og Jon Glaser á Comic Con í New York á dögunum.
Sólveig Eva og Jon Glaser á Comic Con í New York á dögunum.
Sólveig Eva Magnúsdóttir býr og starfar sem leikkona í New York. Hún segir bransann oft erfiðan en hún nýtur þess að þróa sig áfram sem leikkonu. Nýjasta verkefni hennar er hlutverk í sjónvarpsþáttunum Jon Glaser Loves Gear eftir grínistann Jon Glaser.

„Ég kalla mig Eva Sólveig hérna úti því það er auðveldara fyrir New York búa að bera Evu nafnið fram,“ segir Sólveig Eva glaðlega en sjálf eru hún uppalin í Mosfellsbæ og Reykjavík. Leiklistaráhugann hefur hún haft frá blautu barnsbeini og í raun segir hún hann mjög ómeðvitaðan. „Leiklist er stöðugt í kringum okkur. Við lærum mannlega hegðun og að eiga við tilfinningar og hlutverk í samfélaginu. Það var aldrei stund sem ég ákvað „jú ég bara verð að verða leikari,“ maður bara lék sér alla ævi og datt aldrei í hug að hætta því,“ segir hún glaðlega.

Hún minnist þess að hafa sett upp leikrit með höttum af ömmu og skóm af mömmu. „Svo rukkaði ég aumingja fjölskyldu mína um 50 krónur fyrir að sitja í gegnum spunasýningar,“ segir hún og hlær.

 

Sólveig Eva reynir fyrir sér sem leikkona í New York.Mynd/David Noles
Gat ekki beðið

Sólveig Eva fór í Borgarholtsskóla þar sem er ríkt leiklistarstarf og varð fljótlega ákveðin í að sækja um leiklistarskóla eins fljótt og auðið væri. „Þess vegna ákvað ég líka að reyna fyrir mér í London því þar gat ég farið yngri í áheyrnarprufur en hér heima,“ segir Sólveig Eva sem fór í sína fyrstu áheyrnarprufu sextán ára. „Sá sem sá um prufuna hristi hausinn. Hann var indæll og leyfði mér að sýna, en sagði mér að ég væri of ung. Ég skil betur í dag að leiklist tekur ákveðinn þroska og öll reynsla kemur sér vel.“

Vill skapa eigin tækifæri

Sólveig Eva var einnig spennt fyrir því að geta leikið á ensku jafnt sem íslensku. Hún fór því aftur út átján ára. „Ég var búin að raða áheyrnarprufum upp fyrir ýmsa frábæra skóla, en sú fyrsta var fyrir Rose Bruford þar sem ég var spurð hvað væri mér mikilvægt og ég sagðist vilja geta skapað eigin tækifæri, eigin verk, og geta skilið ferlið í kringum leikarann til að verða sjálfstæð. Mér var bent á evrópska leikhúsfræði og eftir að hafa komist inn hætti ég við allar aðrar áheyrnarprufur. Þessi nálgun var rétt fyrir mig.“

Sólveig Eva var mjög ánægð með val sitt. „Evrópska leikhúsfræðibrautin (BA European Theatre Arts) leggur áherslu á að vinna líkamlega með efnið. Það er unnið mikið með ólíka leikhústækni og lögð áhersla á líkamlegan spuna, sjálfstæði og samstarf,“ lýsir Eva Sólveig og segir þurfa ákveðinn aga til að læra á þennan hátt.

„Það besta við brautina var að ég kynntist Bergdísi Júlíu, Henr­iette Kristensen og Önnu Korol­ainen, en saman stofnuðum við leikhópinn Spindrift Theatre. Við unnum til dæmis með yfir 30 hæfileikaríkum listamönnum í Tjarnar­bíói árið 2015 með sýningunni okkar Carroll: Berserkur, með styrk Evrópu unga fólksins og Reykjavíkurborgar.“

Fyrirsætan Sólveig Eva.
Heldur áfram að læra

Sólveig Eva hlaut árið 2012 John Gielgud-styrk og segir það hafa verið mikinn heiður. „Það er ofboðslega hjálplegt og hvetjandi að hljóta styrk sem kemur frá meistara eins og Gielgud, og meðmæli og trú kennaranna sem hjálpuðu í Rose Bruford. Það kveikir líka neista að hugsa um getu og leikgleði gömlu bresku leikaranna.“

Sólveig Eva útskrifaðist árið 2013 en heldur áfram að þróa sjálfa sig. „Ég fer á námskeið þegar ég hef ráð á því, enda sterkur agi í bransanum hér að halda alltaf áfram að æfa sig utan sviðsljóssins,“ segir hún og nefnir trúðanámskeið hjá LAMDA, náttúruvædda leikarann hjá Staniewski í Póllandi, físískt leikhús Meyerhold á Ítalíu, natúrisma í Eistlandi. „Hér í New York hef ég lært hjá Stellu Adler og er nú vikulega með Terry Schreiber og spunaskólanum Upright Citizen’s Brigade.“

Spennandi tilvera í New York

Sólveig Eva flutti til New York með eiginmanni sínum, Gísla Karli Ingvarssyni, sem einnig er leikari. „Gísli Karl vann græna kortið og ég hafði alltaf verið mjög spennt að koma hingað. Ég fann strax að atvinnumarkaðurinn hér er mjög spenntur fyrir því að finna nýja einstaklinga og hér er ógrynni af bransafólki sem er óþreyjufullt að skapa saman. Það heillar mig upp úr skónum.“

Hún viðurkennir þó að það hafi verið dálítið sjokk að venjast bransanum í New York og að fylgjast með því hvernig hlutverk eru í boði eftir kyni, aldri og kynþætti. „Til dæmis er hlutfall tilboða og hlutverka sem krefjast nektar gífur­legt fyrir ungar konur, og oft auglýst fyrir hlægileg laun. Svo gapir maður bara yfir sumum hlutverkalýsingum og þarf að passa sig að missa ekki vonina.“

Lífleg leiklistarsena

Framboðið á hlutverkum í New York er töluvert. „Hér er hægt að velja milli leikhúss, sjónvarps og kvikmynda. Það sem ég hef helst rekið mig á er að maður þarf að vera félagi í Screen Actors Guild og Equity til að geta sótt um mörg af þeim hlutverkum sem eru í boði. Biðtíminn eftir aðild er langur en núna í desember verð ég loks orðin fullgildur meðlimur í þeim báðum og það er góð tilfinning fyrir næsta ár.“

En hvernig hlutverkum sækist hún eftir? „Handritum sem fá hjartað til að slá, með talsmáta sem mér finnst trúverðugur og sem kveikir á túlkun sem mér finnst ég fær um eða er hrædd við. En aðal­lega samstarfsmenn með sterka sýn, leikstjóra sem vita hvað þeir vilja fá. Hlutverk ein og sér geta auðveldlega týnst án þessa.“

Sólveig Eva er gift leikaranum Gísla Karli.
Saman í leiklistinni

Þau Gísli Karl kynntust í gegnum sameiginlegan vin sem bað þau um að gera stuttmynd þegar Sólveig Eva hafði nýlokið við fyrsta ár sitt í leiklistinni. „Gísli var búinn að vera virkur í leiklist í Versló. Við urðum strax yfir okkur skotin og bestu vinir, og það sem heillaði mig mest var að hann var alltaf til í að leika með mér. Sama hversu litlir leikirnir voru.“

Hún segir frábært að búa með manni sem veit út á hvað hennar eigið starf gengur. „Það er frábært að víkka sjóndeildarhringinn og reynslubankann með einhverjum sem er að elta sömu hlutina, og að geta treyst einhverjum að vera hreinskilinn og gagnrýninn en ekki bara elskulegur. Það er nauðsynlegt að geta fengið faglegt álit á prufum frá einhverjum sem skilur út og inn um hvað maður er að tala. Svo er ekki verra hvað hann er hæfileikaríkur og alltaf gaman að horfa á hann á sviði.“

Búa í Actoria

Sólveig Eva og Gísli Karl búa í því sem hún kallar „trendí“ hlutanum af Queens, í Astoria. „Það er stundum kallað Actoria því hér býr ógrynni af leikurum. Hér eru frábærar samgöngur, kaffihús, barir og veitingahús. Við fundum fína íbúð frá því fyrir stríð og sjáum glytta í háhýsi úr eldhúsglugganum. Í kjallaranum er undar­legt kjarnorkubyrgi,“ segir hún og hlær.

Jon Glaser Loves Gear

Nýjasta verkefni Sólveigar Evu er hlutverk í grínþáttunum Jon Glaser­ Loves Gear sem unnir voru fyrir grínsjónvarpsstöðina TruTV. „Jon Glaser er grínisti sem hefur unnið í fjölda ára sem höfundur hjá Conan O’Brien og hefur leikið í til dæmis Parks and Recreation, Inside Amy Schumer, Girls og Train­wreck. Grínþættir eftir hann, Delocated og Neon Joe, hafa sérstæðan húmor og sterkan aðdáendahóp. Hann er indælasti maður í heimi og þess vegna finnst mér sérstaklega gaman hvernig húmorinn hans kemur sjaldnast út í blíðum bröndurum heldur stinga oft og pína mann með vandræðalegri eða óviðeigandi hegðun, “ segir Sólveig Eva. Þátturinn gerir gys að fólki sem fær áráttu fyrir tækjabúnaði, golfbúnaði, veiðibúnaði, útilegubúnaði. „Brandarinn sprettur úr sannsögulegri ást Jons á slíkum búnaði,“ útskýrir hún.

„Jon leikur mann í raunveruleikaþætti sem er að kynna allan mest spennandi tækjabúnað sem hann kemur höndum yfir. Eiginkona hans, sem leikin er af Miriam Tolan, þverneitar að taka þátt enda löngu komin með nóg af árátt­unni og því tekur hann til þeirra ráða að ráða unga evrópska skvísu til að leika hana í staðinn.“ Og það er hlutverkið sem Sólveig Eva leikur en hún kemur fram í sjö af tíu þáttum.

Margt framundan

Undanfarið hefur Sólveig Eva verið að kynna þættina og fyrir stuttu tóku leikararnir þátt í Comic Con í New York. „Þættirnir verða svo sýndir í sjónvarpinu þann 26. október.“

Leikkonan vinnur nú einnig rannsóknarvinnu fyrir næstu sýningu Spindrift-hópsins. „Við erum að taka viðtöl við karlmenn með ólíkan bakgrunn og reynum að komast að karllægri lífsreynslu í samfélaginu. Viðtölin verða svo nýtt í gegnum svokallað verbatim eða „orð fyrir orð“ leikhúsform en í þessu tilviki munu konur tjá sögur þessara karlmanna, og við erum forvitnar að sjá hvað gerist við slíka meðferð,“ segir Sólveig Eva og er spennt fyrir framhaldinu, bæði í lífi og list.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×