Menning

Tígulegt verk og öllu er tjaldað til

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Hörður Áskelsson stjórnandi, drottningarnar Sigríður Ósk Kristjánsdóttir og Þóra Einarsdóttir söngkonur og konungurinn Robin Blaze kontratenór.
Hörður Áskelsson stjórnandi, drottningarnar Sigríður Ósk Kristjánsdóttir og Þóra Einarsdóttir söngkonur og konungurinn Robin Blaze kontratenór. Vísir/GVA
Óratorían Salómon er mikið sjónarspil með óhemju fallegum aríum og skartar fyrsta flokks einsöngvurum, barokkhljóðfæraleikurum víðsvegar að úr heiminum og okkar verðlaunaða Mótettukór,“ segir Hörður Áskelsson, listrænn stjórnandi, og kemst á flug þegar hann er beðinn að lýsa viðburðinum nánar og flytjendum hans.

Mikill brími í gangi

Salómon konungur er holdgervingur viskunnar í heimi Gamla testamentisins og við erum með breskan kontratenór í hlutverki hans, Robin Blaze, sem er einn af leiðandi söngvurum í þeirri sérstöku grein.

Svo eru tvær drottningar, Þóra Einarsdóttir syngur hlutverk eiginkonu Salómons sem er dóttir faraósins af Egyptalandi og Sigríður Ósk Kristjánsdóttir fer með hlutverk drottningarinnar af Saba.

Prestar tveir eru túlkaðir af Oddi Arnþóri Björnssyni baríton og Benedikt Kristjánssyni tenór.

Óratorían er í þremur þáttum og sá fyrsti skiptist í tvo hluta, annars vegar vígslu íburðarmikils helgidóms sem Salómon hefur látið reisa guði sínum til dýrðar, þannig að verkið byrjar með mikilli hátíð.

Annar hluti er ástarsaga þeirra konungshjónanna og þar er mikill brími í gangi. Kórinn endar á að syngja hugljúfan kvöldsöng. Leikið er með á þverflautur sem líkja eftir söng næturgalans. Þetta er bullandi rómantík.

Prestarnir taka þátt í lofgjörðinni og heiðra Salómon og miklar hyllingar eru í gangi, bæði til guðs og Salómons konungs, enda var hann gríðarlega vinsæll meðal fólksins.

Salómonsdómurinn

Händel hafði áhuga á vinsældum og talið er að hann hafi spilað á ástandið í Englandi þegar hann samdi þetta verk 1748. Þá var nýafstaðinn ófriður í Evrópu en vonir bundnar við að Georg Bretakonungur væri friðsamur og leiddi hamingju yfir lýðinn. Lýsing á hinum vitra kóngi gyðinga til forna féll vel inn í þær aðstæður.

Annar þáttur er um hinn réttláta Salómonsdóm og honum fylgir guðdómleg músík.

Söngkonurnar tvær eru þá í hlutverki kvenna sem hafa nýlega fætt börn í lausaleik undir sama þaki en annað barnið látist. Þær koma að höllinni með ungbarn og grátbiðja um áheyrn hjá hinum vitra konungi til að láta hann skera úr um hvor þeirra eigi það.

Önnur konan segir hina hafa skipt á börnum um nótt og tekið það sem lifði. Konungur biður þjóna að koma með beitt sverð og höggva barnið í tvennt svo konurnar fái hvor sinn helming.

Sú sem hafði skipt á börnunum er grimm og hún fagnar þessum dómi en hin grátsyngur fallegan bænasöng vegna niðurstöðunnar og afsalar sér barninu til hinnar.

Með þessu leiðir Salómon í ljós hvor konan ber hinar hreinu móðurtilfinningar og lætur hana fá barnið. Þau syngja sætan dúett, Salómon og móðirin, og þátturinn endar á mikilli lofgjörð um viskuna og réttlætið.

Hin glæsta drottning af Saba

Í þriðja þætti fær Salómon heimsókn drottningarinnar frá Saba, einnar auðugustu og glæsilegustu konu sem sögur fara af. Forleikurinn er frægt lag fyrir hljómsveit.

Drottningin kveður sér hljóðs og kveðst vilja kynnast þeirri visku sem konungurinn sé rómaður fyrir. Þá setur hann upp stórfenglega sýningu til að ganga í augun á henni og kórinn kynnir með tilþrifum dans og gleði í ríkinu, hernaðarmátt þess og sigur hins góða yfir hinu illa, eins og töframaður sem dregur upp úr hatti sínu hvert atriðið af öðru.

Að launum færir drottningin Salómoni gull, sedrusvið og gimsteina, þau syngja dúett, prestarnir syngja sitt álit og svo endar allt á fögrum lokakór þar sem allir lofa guð og konunginn.

Lútuleikarinn einn sá besti

Inntur eftir hvernig á því standi að óratorían Salómon hafi aldrei verið sett upp hér á landi áður svarar Hörður:

„Þetta er svo mikið fyrirtæki. Þó við séum með hátt miðaverð þá er útilokað að við náum inn nema um helmingi kostnaðar, hitt verðum við að grafa undan okkar eigin nöglum. Þetta er auðvitað fáránlega vitlaust rekstrarlega.

Við erum með 30 manns í hljómsveit, þar af um 25 frá útlöndum því við eigum svo fáa lærða barokkhljóðfæraleikara hér. Lútuleikarinn þykir einn sá besti í heiminum. Lútan er skreytihljóðfæri sem er sérstök list að spila á og ég hef ekki notið þess að hafa það stóra strengjahljóðfæri í Händel-flutningi áður.

Óratorían Salómon er tígulegt verk og við hér í Hallgrímskirkju höfum verið að safna óratoríum. Þetta er sú fimmta sem við flytjum eftir Händel og þessi er dálítið annars eðlis en hinar. Hver um sig er samt ævintýri og upplifun og ég leyfi mér þann munað að flytja þær óstyttar. Held að enginn sé verri af því að hlýða á allt verkið, þó að það taki þrjá tíma og ég vona að sem flestir fái að njóta þess.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.