Enski boltinn

Everton fær efnilegan varnarmann frá Barnsley

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fetar Holgate í fótspor Stones?
Fetar Holgate í fótspor Stones? vísir/getty
Everton hefur fest kaup á Mason Holgate frá enska C-deildarliðinu Barnsley.

Holgate, sem er 18 ára gamall varnarmaður, skrifaði undir fimm ára samning við Everton en fleiri lið voru á höttunum á eftir þessum efnilega leikmanni.

„Við vildum ekki missa af þessu tækifæri þegar það bauðst. Hann er ungur maður sem á bjarta framtíð fyrir höndum,“ sagði Roberto Martínez, knattspyrnustjóri Everton, um nýja leikmanninn.

„Það verður áhugavert að sjá hversu fljótur hann verður að aðlagast og láta að sér kveða með aðalliðinu.

„Ég býst þó ekki við því að hann stökkvi fullskapaður fram á sviðið í ensku úrvalsdeildinni, það væri ósanngjarnt af mér.“

Holgate spilaði sinn fyrsta leik fyrir Barnsley í 1-1 jafntefli við Doncaster Rovers í byrjun desember í fyrra og var eftir það fastamaður í liðinu.

Everton hefur góða reynslu af varnarmönnum frá Barnsley en liðið keypti einmitt John Stones, sem nú er orðaður við Chelsea og Manchester United, frá Barnsley.

Everton gerði 2-2 jafntefli við nýliða Watford í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á laugardaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×