Enski boltinn

Hvað er nýtt í vetur?

Louis van Gaal, stjóri Man. Utd.
Louis van Gaal, stjóri Man. Utd.
Nýtt tímabil kallar á margt nýtt. Nýja búninga, nýja leikmenn og líka nýjar reglur.

Leikaraskapur: Nú á að fara að taka fastar á leikaraskap. Loksins, loksins segja einhverjir. Ef í ljós kemur á myndbandsupptökum að leikmaður var ranglega rekinn af velli, og bannið er dregið til baka, þá á leikmaðurinn sem fiskaði andstæðinginn af velli yfir höfði sér allt að þriggja leikja bann. Eftir þessu hefur verið kallað lengi og deildin loks að bregðast við.

Knattspyrnustjórar: Það á að taka harðar á hegðun knattspyrnustjóra á hliðarlínunni. Fyrst fá þeir aðvörun og svo verða þeir sendir upp í stúku.

Gróf brot: Ef brot er einstaklega gróft að mati dómara þá er stjórinn sendur strax upp í stúku. Menn fá þó áfram leyfi til þess að vera lifandi en gæta verður hófs eins og í svo mörgu.

Kvart: Það er orðið afar algengt að lið hópist að dómara og kvarti. Jafnvel allir leikmenn liða og það fer í taugarnar á ansi mörgum. Sérstaklega þar sem dómarar eru oft ragir við að refsa fyrir slíka hjarðhegðun.

Fjöldi til dómara: Áður máttu þrír koma til dómara en nú mega aðeins tveir koma. Félög verða kærð ef þau brjóta þessa reglu sem sjaldan hefur reyndar verið farið eftir. Á að reyna að breyta því núna.

Rangstaða: Aftur hafa verið gerðar áherslubreytingar á rangstöðureglunni. Leikmenn sem hafa áhrif á gang mála þó svo þeir snerti ekki boltann verða dæmdir rangstæðir.

Nýr bolti: Notaður verður nýr bolti í vetur en hann heitir Nike Ordem 3. Útlitið er ekki ósvipað grímu Köngulóarmannsins. Þessi bolti á víst ekki að breyta jafn mikið um stefnu og síðasti bolti og markmenn fagna því nýja boltanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×