Lífið

Sigur Rós tekur upp í hljóðveri í New York

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Hljómsveitin Sigur Rós vinnur með virtum upptökustjóra í New York um þessar mundir. Sveitin gaf síðast út plötuna Kveikur árið 2013.
Hljómsveitin Sigur Rós vinnur með virtum upptökustjóra í New York um þessar mundir. Sveitin gaf síðast út plötuna Kveikur árið 2013. Vísir/Getty
Hljómsveitin Sigur Rós er um þessar mundir stödd í hljóðveri í New York að taka upp nýtt efni. „Jú, það er rétt að strákarnir eru í hljóðveri í New York að vinna að nýju efni, en hvað kemur út úr því veit svo sem enginn að svo stöddu. Þeir hafa verið að hittast öðru hvoru á þessu ári til að vinna að nýju efni,“ segir Kári Sturluson, umboðsmaður Sigur Rósar.

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Fréttablaðsins er sveitin að vinna þar með bandaríska upptökustjóranum John Congleton en hann vann meðal annars Grammy-verðlaun á síðasta ári fyrir upptökustjórn og hljóðblöndun á plötu bandarísku tónlistarkonunnar St. Vincent. Platan, sem er samnefnd tónlistarkonunni, var valin besta alternative-platan á Grammy-verðlaununum í fyrra.

Upptökurnar eru þó ekki þær fyrstu sem sveitin vinnur með Grammy-verðlaunahafanum, því áreiðanlegar heimildir blaðsins herma að sveitin, sem í dag er skipuð þeim Jóni Þór Birgissyni, Georg Holm og Orra Páli Dýrasyni, hafi unnið með John Congleton í hljóðveri Sigur Rósar hér á landi í mars síðastliðnum.

Sigur Rós hefur haldið sig til hlés síðan hún kláraði tónleikaferðalag sitt um heiminn í nóvember 2013. Það var stærsta tónleikaferðalag sveitarinnar og spilaði hún á 141 tónleikum í 32 löndum.Vísir/Getty
Ferlið er þó á frumstigi og ekki liggur fyrir hvenær nýtt efni eða ný plata kemur út.

Sigur Rós hefur gefið út sjö breiðskífur. Hún gaf síðast út plötuna Kveikur árið 2013 og þar á undan plötuna Valtari árið 2012. Kveikur var jafnframt fyrsta platan sem sveitin gaf út eftir að Kjartan Sveinsson yfirgaf hljómsveitina. 

Sigur Rós hefur haldið sig til hlés síðan hún kláraði tónleikaferðalag sitt um heiminn í nóvember 2013. Það var stærsta tónleikaferðalag sveitarinnar og spilaði hún á 141 tónleikum í 32 löndum. Alls sáu um níu hundruð þúsund manns tónleika Sigur Rósar á tónleikaferðalaginu, sem stóð frá 29. júlí 2012 til 30. nóvember 2013.

Meðlimir sveitarinnar hafa þó verið að vinna að öðrum verkefnum undanfarið og unnu bassaleikarinn Georg Holm, trommuleikarinn Orri Páll, gítarleikarinn Kjartan Holm sem hefur spilað hefur með sveitinni á tónleikaferðalögum og tónskáldið Hilmar Örn Hilmarsson við að semja tónlistina við nýja heimildarmynd fyrir BBC sem ber titilinn The Show of Shows. Myndinni leikstýrir Benedikt Erlingsson og fer hún í sýningu á næsta ári. Tónlistin kemur þó út þann 21. ágúst á plötu sem nefnist Circe og var hún tekin upp í stúdíói Sigur Rósar í Reykjavík. 

Hér má sjá myndband við lagið Glósóli:


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.