Innlent

Gagnrýnir flutning til forsætisráðuneytis

Ingvar Haraldsson skrifar
Ríkisendurskoðun gagnrýnir flutning safnsins milli ráðuneyta.
Ríkisendurskoðun gagnrýnir flutning safnsins milli ráðuneyta. VÍSIR/ANTONBRINK
Ríkisendurskoðun gagnrýnir flutning Þjóðminjasafns Íslands til forsætisráðuneytisins árið 2013 í nýrri eftirfylgniskýrslu stofnunarinnar um íslensk muna- og minjasöfn.

Við skiptingu ráðuneyta í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar árið 2013 voru málefni tengd þjóðmenningu, þar með talið Þjóðminjasafn Íslands fært yfir á forræði forsætisráðuneytisins.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Í skýrslunni er bent á að mennta- og menningarmálaráðuneytið sjái almennt um safnamál og þar sé faglega þekkingu á málefnum safna að finna. Því dragi flutningur Þjóðminjasafnsins úr forræði mennta- og menningarmálaráðuneytisins yfir málaflokknum og gangi þar með gegn fyrri ábendingum Ríkisendurskoðunar.

„Í ljósi þess og þeirrar faglegu þekkingar á málefnum safna sem það ráðuneyti býr yfir, má telja að óskorað forræði þess yfir safnamálum stuðli að skilvirkri, markvissri og faglegri stjórn safnamála,“ segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Því færi betur á því að Þjóðminjasafn Íslands, sem sé höfuðsafn á sviði menningarminja, líkt og önnur safnamál, væri á forræði mennta- og menningarmálaráðuneytis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×