Lífið

Allt undirlagt af innilegri ánægju á útgáfutónleikunum

Guðrún Ansnes skrifar
Sigtryggur er býsna ánægður með hópinn og lofsamar eldri borgarana í bak og fyrir.fréttablaðið/VALLI
Sigtryggur er býsna ánægður með hópinn og lofsamar eldri borgarana í bak og fyrir.fréttablaðið/VALLI
„Þetta er fyrst og fremst sjarmerandi verkefni sem heillaði mig upp úr skónum,“ segir Sigtryggur Baldursson, einnig þekktur sem Bogomil Font, þegar hann er beðinn að lýsa samstarfi sínu við Tóna og Trix, hljómsveit eldri borgara úr Þorlákshöfn, sem margir hverjir hófu tónlistarferilinn á gamals aldri.

„Ég stökk á boðið um að taka þátt í þessu ævintýri með það sama og svo er ég náttúrulega afar lukkulegur með að þau skyldu taka lag frá mér, Hæ Mambó, og skella á plötuna. Það fannst mér krúttlegt,“ segir Sigtryggur sem sér um slagverkið.

Mun Sigtryggur stíga á stokk með hljómsveitinni á útgáfutónleikunum, en hann söng einmitt inn á nýútkomna plötuna, sem ber nafnið Tónar og Trix.

Auk Sigtryggs létu Samúel J. Samúelsson, Jónas Sig., Salka Sól, Unnsteinn Manúel, Unnur Birna og Kristjana Stefánsdóttir, auk einvalaliðs annarra tónlistarmanna, til sín taka á plötunni og mun því mikið verða um dýrðir á tónleikunum.

„Þarna er hópur tónlistarmanna samankominn sem syngur og spilar af sannri ánægju, og mórallinn er svo skemmtilegur,“ segir Sigtryggur auðmjúkur um samstarfið. „Þarna verða flutt dægurlög úr öllum áttum, og get ég sagt að hér er enginn afsláttur gefinn, hvort sem er af hljómsveitinni eða söngvörunum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×