Menning

Konur í aðalhlutverki

Magnús Guðmundsson skrifar
Hanna Styrmisdóttir er listrænn stjórnandi Listahátíðarinnar í Reykjavík og hún setur listsköpun kvenna í öndvegi á hátíðinni í ár sem og næsta ár.
Hanna Styrmisdóttir er listrænn stjórnandi Listahátíðarinnar í Reykjavík og hún setur listsköpun kvenna í öndvegi á hátíðinni í ár sem og næsta ár. Visir/Stefán
„Við skoðuðum stöðu kvenna innan Listahátíðar í Reykjavík allt frá árinu 1970 og þetta hefur ekki verið nógu gott og við viljum gera þetta betur,“ segir Hanna Styrmisdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðarinnar, sem í gær kynnti dagskrá komandi hátíðar dagana 13. maí til 7. júní undir yfirskriftinni Fyrri hluti.

Seinni hluti sömu hátíðar verður svo kynntur til leiks fyrir hátíðina 2016 enda er ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur með því viðamikla verkefni að rétta hlut höfundarverks kvenna á vegum hátíðarinnar.

Hanna bendir á að það hafi, allt frá því undirbúningur hátíðarinnar hófst, verið ákveðið að tengja hana við aldarafmæli kosningaréttar kvenna og því hafi verið farið í að skoða þessi mál. „Það kom fljótt í ljós að ein hátíð myndi engan veginn duga til, að gera þessu víðfeðma viðfangsefni alvöru skil enda enginn skortur á framúrskarandi list kvenna á öllum sviðum.

Okkur langaði til þess að gera meira, það er margt sem bíður næsta árs og því verður næsta hátíð framhaldshátíð. Málið er að áhuginn hjá spennandi listamönnum víða að úr heiminum er til staðar en það er ekki einfalt að koma fólki að í þessum nokkurra vikna glugga sem listahátíðin er ár hvert.“

Hanna leggur einnig mikla áherslu á að það eru fleiri verkefni sem brenna á hátíðinni. Stór hluti hátíðarinnar fer fram í miðborginni og mikil áhersla er lögð á viðburði utan miðasölu og aðgengismál almennt. „Á síðustu hátíðum hefur of lítið farið fyrir opnum og almennum viðburðum að okkar mati en nú erum við með viðburði sem allir geta notið. Þar rísa Guerilla Girls og BANDALOOP hvað hæst á opnunarhátíðinni en það er sitthvað fleira spennandi í farvatninu.“

Í undirbúningi eru aðgerðir til til að gera vefsíðu, viðburði og sýningar hátíðarinnar aðgengilegar öllum notendum. En auk þess er leitast við að auka efnahagslegt aðgengi eins og kostur er. „Opnanir á myndlistarsýningar eru öllum opnar og er myndlistin þannig sérstaklega aðgengileg. Að auki reynum við eins og frekast er unnt að halda miðaverði á viðburði í lágmarki.

Þá kynnum við nú til sögunnar sérstakt afsláttarkort sem gengur undir heitinu Vinur Listahátíðar sem kostar 3.900 kr. Með því má fá 30% afslátt frá miðaverði og allt að 50% afslátt á sýningardegi. Þannig að það er þó alltént hægt að taka sénsinn á að ekki seljist upp og njóta umtalsverðra afsláttarkjara. Það sem mestu skiptir er að sem flestir nái að njóta alls þess sem hátíðin hefur að bjóða.“

Það er óhætt að fullyrða að það er fjöldi spennandi viðburða í farvatninu á Listahátíð Reykjavíkur og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Það er alltént alltof langt mál að ætla að gera öllu skil í þessum fátæklegu orðum og því um að gera fyrir fólk að kynna sér dagskrána á næstunni og njóta svo listarinnar með hækkandi sól.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×