Menning

Túlka hafið og átök sjóaranna við það

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Ég hef aldrei sungið þessa sinfóníu en ég þekki hana,“ segir Fjölnir.
"Ég hef aldrei sungið þessa sinfóníu en ég þekki hana,“ segir Fjölnir. Vísir/Pjetur
„Sjávarsinfónían er ótrúlega flott. Þótt verkið sé samið snemma á 20. öldinni og hafi þá þótt framúrstefnulegt í tónmáli er Vaughan Williams svo melódískur og skrifar fyrir alla. Hann fangar líka stemninguna vel þegar hann túlkar hafið og baráttu sjóaranna við það.“

Þetta segir Fjölnir Ólafsson baritón sem ásamt Tui Hirv sópran syngur einsöng í Sjávarsinfóníunni með Háskólakórnum og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins á laugardaginn í Langholtskirkju klukkan 17 og á mánudaginn klukkan 20. Gunnsteinn Ólafsson stjórnar.

Hundrað og þrjátíu manna hópur ungmenna flytur Sjávarsinfóníuna og Gunnsteinn Ólafsson stjórnar.
Fjölnir hefur áður sungið með sama kór og sömu hljómsveit. Það var sumarið 2012, þegar hann söng aðalhlutverkið í Don Giovanni.

Hann er sonur Ólafs Kjartans Sigurðarsonar óperusöngvara og afabarn Didda fiðlu. Því gerir maður ráð fyrir að hann sé á kafi í tónlist en í ljós kemur að hann er að ljúka fyrsta ári við laganám í Háskóla Íslands. Honum þykir það frábærlega skemmtilegt en hann er líka menntaður í söng bæði frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og Tónlistarháskólanum í  Saarbrücken í Þýskalandi og þegar honum bjóðast söngverkefni sem heilla þá tekur hann þeim fagnandi.

Um frumflutning hér á landi er að ræða á Sjávarsinfóníunni en þar sem Fjölnir hefur sungið líka í Þýskalandi er hann spurður hvort hann hafi kynnst henni áður.

„Ég hef aldrei sungið þessa sinfóníu en ég þekki hana og hef sungið frægan ljóðaflokk, Songs of Travel, eftir sama höfund, barítónhlutverkið þar er keimlíkt þessu.  Við vorum með fyrstu samæfingu í gær, söngvarar, kór og hljómsveit og allt er að smella saman,“ segir hann og bætir við.

„Það er gríðarlega metnaðarfullt hjá Gunnsteini að takast á við þetta verk og það er frábært að fá að taka þátt í því.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×