Lífið

Var hótað innan við klukkutíma eftir ræðu

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Emma Watson á He For She.
Emma Watson á He For She. vísir/getty
Í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna síðastliðinn sunnudag, mætti leikkonan Emma Watson í klukkutíma langt viðtal í höfuðstöðvum Facebook í London.

Þar talaði Watson um viðbrögðin við ræðu sinni sem hún hélt í september þegar hún kynnti átakið HeForShe. „Mér var hótað strax eftir ræðuna, ég held innan við klukkutíma eftir að ég kláraði hana. Það var komin vefsíða sem hótaði því að birta nektarmyndir af mér,“ sagði Watson. „Ég vissi að það var ekkert á bakvið þetta, þar sem ég vissi að myndirnar væru ekki til.“

Hún segir að margir karlmenn hafi orðið reiðir vegna hótananna sem hún fékk og þar á meðal bróðir hennar. „Honum var ekki sama og ég held þetta hafi vakið menn til vitundar um það að konum er raunverulega hótað á alla vegu.“

Þegar hún var spurð út í feminisma sagði Watson að margir væru hræddir við að kalla sig feminista. „Það er margir sem tengja feminisma við hatur á karlmönnum, sem það er svo alls ekki.“ Hún benti einnig á að jafnrétti í kvikmyndaheiminum væri mjög ábótavant og að konur væru bæði færri og fengju verr borgað en karlar fyrir sama starf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×