Innlent

Fær ekki áminningu

fanney birna jónsdóttir skrifar
Ólöf Nordal innanríkisráðherra ber fullt traust til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og engin eftirmál verða af miðlun persónuupplýsinga af hálfu ráðuneytisins. Ólöf svaraði spurningum þingmanna undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir á Alþingi í gær.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra ber fullt traust til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og engin eftirmál verða af miðlun persónuupplýsinga af hálfu ráðuneytisins. Ólöf svaraði spurningum þingmanna undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir á Alþingi í gær. Fréttablaðið/Valli
Engin eftirmál verða af hálfu innanríkisráðuneytisins vegna úrskurðar Persónuverndar um miðlun viðkvæmra persónuupplýsinga frá lögreglunni á Suðurnesjum til fyrrverandi aðstoðarmanns innanríkisráðherra. Þetta segir Ólöf Nordal innanríkisráðherra í samtali við Fréttablaðið.

Ólöf segir jafnframt að Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri verði ekki áminnt af ráðuneytinu, en áminning er stjórnsýslulegt úrræði sem notast er við hafi embættismaður brotið starfsskyldur sínar með einhverjum hætti.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir
„Ég met það sem svo að hún hafi afhent þessi gögn í góðri trú með þá vissu að það væri verið að kalla eftir þeim af einhverri ástæðu. Ég ber fullt traust til Sigríðar Bjarkar í því starfi sem hún gegnir og tel að hún hafi unnið þetta af heilindum.“

Ólöf segir niðurstöðu Persónuverndar tilefni fyrir stjórnsýsluna í heild sinni til að endurskoða miðlun trúnaðarupplýsinga.

„Almennt hefur æðra sett stjórnvald ríkar heimildir til að kalla eftir gögnum en þarna er verið að segja að það verði að vera einhver umgjörð um það. Ekki að það megi ekki afhenda slík gögn heldur að umgjörðin verði að vera í lagi,“ segir Ólöf og bætir við að skerpa verði skilin á milli embættismanna sem séu að vinna að tilteknum málum og hins pólitíska hluta ráðuneyta og aðstoðarmanna. Forsætisráðuneytið sé með það á sinni könnu.

„Þegar um viðkvæmar persónuupplýsingar er að ræða koma þær okkur ekkert við nema þær varði tiltekið mál. Þær þarf síðan að skrá rétt í málaskrá. Þetta þurfum við að fara yfir.“

Í úrskurðinum segir að við miðlun gagnanna hafi ekki verið stuðst við viðhlítandi heimild, skortur hafi verið á skráningu um miðlun gagnanna, bæði hjá lögreglunni og ráðuneytinu, og þetta hafi farið í bága við kröfur um upplýsingaöryggi. Þá hafi ekki verið gætt viðunandi öryggis við miðlun gagnanna.

Upplýsingarnar sem um ræðir snerta meðal annars Tony Omos, en hann hefur nú áfrýjað máli sínu gegn Útlendingastofnun og íslenska ríkinu til Hæstaréttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×