Innlent

Í rannsóknum og samkeppni samtímis

Heiða Kristín Helgadóttir skrifar
Sveinn Margeirsson, forstjóri MAtís, segir trúnaðarákvæði eiga að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra. Mynd/Matís
Sveinn Margeirsson, forstjóri MAtís, segir trúnaðarákvæði eiga að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra. Mynd/Matís Matís
Íslensk snyrtivörufyrirtæki veigra sér sum hver við að nýta sér þjónustu sem þeim stendur til boða hjá Matís vegna tengsla eins starfsmanns við keppinauta.

Starfsmaðurinn, Hörður G. Kristinsson, er rannsóknarstjóri hjá Matís en hann á sjálfur snyrtivörufyrirtæki sem framleiðir UNA skincare-húðvörurnar ásamt Matís.

Íslensk snyrtivörufyrirtæki kaupa mörg hver rannsóknir af Matís og nota niðurstöður í vöruþróun. Mikil áhersla er lögð á trúnað og allt kapp lagt á að niðurstöður rannsókna rati ekki til keppinauta. Önnur íslensk snyrtivörufyrirtæki eru til dæmis EGF, Sóley, Blue Lagoon og Ankra. Sum nýta sér þjónustu Matís og önnur ekki.

Það þykir ekki eftirsóknarvert að rannsóknir af þessu tagi séu framkvæmdar af keppinautunum sjálfum.

Nokkrir forsvarsmenn snyrtivörufyrirtækja, sem Fréttablaðið hafði samband við, töldu þetta fyrirkomulag mjög óeðlilegt og ekki til þess að ýta undir heilbrigð markaðsskilyrði. Þá var einnig bent á að Matís á sjálft um 30 prósent í fyrirtæki rannsóknarstjórans.

Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, sagði í samtali við Fréttablaðið að hann væri meðvitaður um þessi sjónarmið, en að trúnaðarákvæði í starfssamningum starfsmanna eigi að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra. Auk þess sé verkefnum beint til annarra starfsmanna ef líkur eru á því að hagsmunaárekstur geti komið upp.

Hvað varðar eignarhlut Matís í félagi rannsóknarstjórans sagði Sveinn að það væri fyrirtæki sem væri að freista þess að búa til verðmæti úr vannýttri auðlind sem aðrir hefðu ekki sýnt áhuga á að nýta. Með því að styðja við starfsmenn Matís með þessum hætti væri búinn til hvati fyrir rannsakendur hjá Matís til að fara lengra með sína vinnu og búa til úr henni vöru atvinnulífinu öllu til heilla.

„En við sjáum ekki fyrir okkur að þetta verði eilíflega í okkar höndum,“ sagði Sveinn aðspurður um hver framtíð UNA skincare væri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×