Innlent

Innflytjendur hræddir við að kæra hatursáróður

Marina segir þá sem verða fyrir fordómum veigra sér við því að leita réttar síns.
Marina segir þá sem verða fyrir fordómum veigra sér við því að leita réttar síns.
Marina de Quintanilha e Mendonça, formaður fjölmenningarráðs Reykjavíkurborgar, hefur búið á Íslandi í sextán ár. Hún þekkir vel þarfir þeirra innflytjenda sem búa hér á landi, enda hefur hún starfað lengi sem túlkur

Marina hefur oftsinnis gefið fólki ráð sem hefur mætt fordómum og hatursorðræðu.

„Maður reynir alltaf að skilja hvað er í gangi. Ef að virkilega er um fordóma að ræða þá er góð hugmynd að leita til Mannréttindaráðs og spyrja um ráð. Þeir geta aðstoðað fólk við að leita réttar síns. Þetta er stundum lögbrot.“

Hún segir innflytjendur hrædda við að kæra hatursáróður af ótta við að missa atvinnu eða að staða þeirra og fjölskyldunnar í samfélaginu versni.

„Fólk er hrætt um að missa atvinnu sína, veikja stöðu sína í samfélaginu, það óttast að vera sent heim. Það fyrsta sem fólk spyr að þegar það leitar hjálpar er hvort það geti misst vinnuna ef það kvartar eða hvort það eigi á hættu að vera sent úr landi.“

Hún hvetur innflytjendur hins vegar til þess að tilkynna um allan hatursáróður og kæra þá sem gerast brotlegir við lög. „Það er mikilvægt að láta þetta ekki viðgangast.“

Marina segir umræðu um innflytjendur oft neikvæða og sjaldnar á jákvæðum nótum. „Það er frekar að það sé talað um útlendinga þegar illa gengur.

Nú síðustu tvö ár hafa málefni innlytjenda verið sérstaklega oft til umfjöllunar.“

Marina segir helstu hindranir og vandamál innflytjenda varða fordóma og vanþekkingu.

„Fordómar kvikna vegna vanþekkingar. Fólk verður að gera sér far um að vera betur upplýst, fjölmiðlar þurfa líka að uppfylla ákveðna skyldu og stuðla að meiri þekkingu almennings á málefnum innflytjenda.“

Hún segir skorta fyrirmyndir í samfélaginu. Fáir stjórnendur, fjölmiðlamenn og stjórnmálamenn séu af erlendum uppruna. „Það eru fáeinir af erlendum uppruna sýnilegir í samfélaginu, þetta eru sömu einstaklingarnir sem spegla einsleitar skoðanir, við erum fleiri og okkur skortir fleiri og fjölbreyttari fyrirmyndir.“

Í skýrslu Bjarneyjar Friðriksdóttur, Hatursorðræða í ummælakerfum íslenskra netfréttamiðla, eru tekin saman ummæli sem flokkast sem hatursorðræða. Gerður er sá fyrirvari að allra grófustu ummælin hafa verið fjarlægð af vefstjórum netfréttamiðlanna og því eru þau ekki til umfjöllunar.

Bjarney segir töluvert bera á fordómafullum ummælum sem einkennast af kynþáttafordómum, þjóðernishyggju og ný-rasisma. Algengast sé að fordómafull ummæli séu sett fram í garð múslima.

Dæmi um ummæli sem Bjarney fann í ummælakerfum um múslima (orðrétt)

Beint í gasklefann meðetta!!:D“

Hér í Noregi var alda nauðgara í Osló...100% af þeim voru múslimar....“

Ég er á móti því að múslimar nái hér fótfestu og sýki okkar þjóð, með sínu afbrigðilega hegðunarminstri að nauðga börnum og hafa kynlíf með dýrum og að kúa konur og drepa dætur sínar fyrir að vera ástfangnar af Íslendingi. Eða sírubrenna stelpur fyrir að vilja ekki giftast gömlum mönnum. Þetta pakk á að vera heima hjá sér ef það vill ekki aðlagast okkur og okkar sið.“

Bjarney segir öll ummæli byggð á fordómum alvarleg.

„Ummæli byggð á fordómum eru almennt alvarleg að mínu mati þarsem þau fela í sér beina eða óbeina hvatningu til þess að einstaklingnum eða hópnum sem ummælin beinast gegn verði mismunað, það er að þeir njóti ekki ákveðinna réttinda sökum litarháttar, trúarbragða, kynhneigðar eða annarra þátta.“

Bjarney segir fordómafull ummæli lýsa skorti á þekkingu á hver takmörk tjáningarfrelsisins eru og hvaða lög og mannréttindaákvæði eru í gildi í landinu.

„Ég tel að oft séu fordómafull ummæli sett fram án þess að sá sem tjáir sig ígrundi þá ábyrgð sem það felur í sér. Tjáningarfrelsi er heimilt að takmarka vegna réttinda eða mannorðs annarra og það telst til alþjóðlega viðurkenndra mannréttinda að njóta verndar gegn hatursorðræðu og að vera ekki mismunað. 233. grein í íslenskum hegningarlögum er fyrst og fremst sett fram til að vernda mannréttindi þeirra sem verða fyrir hatursorðræðu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×