Innlent

Rækjusjómenn kærðir fyrir að slíta 17 milljóna króna sæstreng í Arnarfirði

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Arnarfjörður Sæstrengur var lagður yfir rækjumið segja útgerðarmenn ósáttir. "Þessar aðgerðir geta mögulega valdið einstaka útgerðum rekstrartapi,“ segir í bréfi til Ísafjarðarbæjar.
Arnarfjörður Sæstrengur var lagður yfir rækjumið segja útgerðarmenn ósáttir. "Þessar aðgerðir geta mögulega valdið einstaka útgerðum rekstrartapi,“ segir í bréfi til Ísafjarðarbæjar. Fréttablaðið/Jón Sigurður
Neyðarlínan og Orkubú Vestfjarða kærðu þrjá rækjuskipstjóra til lögreglu fyrir að vinna skemmdarverk á sæstreng sem lagður var yfir Arnarfjörð í fyrrasumar en slitinn í sundur í haust.

Sæstrengurinn flutti rafmagn í mastur sem Neyðarlínan reisti á Laugabólsfjalli og ber búnað sem á að bæta fjarskipti á svæðinu. Orkubú Vestfjarða tók við rekstri strengsins þegar hann var tilbúinn.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi sendu bæjaryfirvöldum á Ísafirði bréf þar sem því er haldið fram að útgáfa skipulagsstjóra Ísafjarðar í júní í fyrra á framkvæmdaleyfi til Neyðarlínunnar hafi verið ólögmæt þar sem ekki hafi verið gætt að lögbundnu samráði. Ekki hafi verið samráð við Skipulagsstofnun og umsögn frá Umhverfisstofnun hafi verið takmörkuð því hún hafi aðeins fjallað um lagningu strengsins á landi en ekki í sjó.

Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar.Fréttablaðið/GVA
„Því miður var ekkert samráð haft við þá aðila sem stunda útgerð og veiðar á þessu svæði,“ segir í bréfi samtakanna. „Í þessu tilfelli hefur strengurinn verið lagður yfir gjöful rækjumið þar sem veiðar hafa verið stundaðar í áratugi í Arnarfirði en lagning hans takmarkar einnig aðrar fiskveiðar á svæðinu.“

Skipulags- og byggingarfulltrúi Ísafjarðarbæjar sendi bæjarráði umsögn um málið. „Að mínu mati hefur ekkert formlegt leyfi verið gefið út í þessu máli," segir í umsögn Ólafar Guðnýjar Valdimarsdóttur.

Daníel Jakobsson Fyrrverandi bæjarstjóri á ísafirði.
Bæði Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, og Kristján Haraldsson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða, mótmæla því að ekki sé lögmætt leyfi fyrir strengnum.

„Öll tilskilin leyfi liggja fyrir, frá byggingarfulltrúa, samþykkt af byggingarnefnd, og frá Umhverfisstofnun vegna lagningar í sjó,“ segir Þórhallur.

Þórhallur og Kristján telja að skipstjórarnir þrír hafi tekið lögin í sínar hendur í haust, vísvitandi farið á bátum sínum og togað yfir strenginn þar til hann slitnaði.

Strengurinn kostaði að sögn Þórhalls 17 milljónir króna. Hann reyndist ónýtur og var dreginn í land. Búnaðurinn á Laugabólsfjalli er nú knúinn með dísilrafstöð og óvíst er um lagningu og legu nýs strengs.

Daníel Jakobsson, sem var bæjarstjóri á Ísafirði þar til í júní í fyrra og situr nú í minnihluta í bæjarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokk, telur að við afgreiðslu málsins á þeim tíma hafi ekki verið viðhöfð góð stjórnsýsla.

„Þetta gerðist nú reyndar hálfpartinn á minni vakt sem bæjarstjóri,“ tekur Daníel fram. Hann kveður bréf frá umhverfisnefnd bæjarins á þessum tíma vegna erindis Neyðarlínunnar hafa valdið misskilningi.

Mastur Neyðarlínunnar á Laugabólsfjalli ber búnað sem bætir fjarskipti á svæðinu.Mynd/Neyðarlínan
„Fyrir leikmann er ekki hægt að skilja annað heldur en að það sé búið að gefa út framkvæmdaleyfi en í raun var ekki verið að því heldur að tilkynna að umhverfisnefnd hafi samþykkt málið fyrir sitt leyti. En í þessu tilviki er það ekki á forræði bæjaryfirvalda að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir lagningu sæstrengs,“ útskýrir Daníel.

Burtséð frá því að meira samráð hefði mátt vera við rækjusjómennina segir Daníel að alls ekki hafi verið tilefni til að slíta strenginn. „Þarna er búið að valda stórtjóni og draga úr öryggi okkar íbúanna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×