Innlent

Vildi afneita uppruna sínum

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Hryðjuverkin í París hafa enn á ný sett af stað umræðu um múslima. Þótt fordóma verði vart segir Ahd aukna umræðu til góðs og að hann verði var við stækkandi hóp víðsýns fólks sem gerir sér grein fyrir margbreytileikanum og falli ekki í pytt fordóma.
Hryðjuverkin í París hafa enn á ný sett af stað umræðu um múslima. Þótt fordóma verði vart segir Ahd aukna umræðu til góðs og að hann verði var við stækkandi hóp víðsýns fólks sem gerir sér grein fyrir margbreytileikanum og falli ekki í pytt fordóma. vísir/jake corbett
Ahd er á gangi um götur London þegar blaðamaður hefur samband við hann. Hann heldur snjallsímanum á lofti og gengur hröðum skrefum um Islington-hverfi. Hann er fluttur til borgarinnar, nýútskrifaður leikari og leitar sér tækifæra. Hann er á leiðinni í atvinnuviðtal, vantar aukavinnu. „Mig vantar eiginlega líka íbúð,“ segir hann sposkur. Það er hark að taka fyrstu skrefin í leiklistarbransanum í London en hann álítur að tækifærin séu fleiri í stórborginni. „Hér eru meiri líkur á hlutverkum fyrir leikara sem er dökkur á hörund. Það er enginn rasismi viðloðandi íslenskan bransa, hann er einfaldlega bara lítill.“



Ahd flúði til Íslands frá Jerúsalem árið 1995 með móður sinni og fjórum systkinum. Móðir hans Amal Tamimi, flúði ofríki og ofbeldi þáverandi eiginmanns síns.

„Ég man að þetta var um miðja nótt og mamma sagði við okkur að hún ætlaði að fara með okkur til systur sinnar. En allt í einu vorum við komin á flugvöllinn. Mamma var alveg á taugum, skalf úr hræðslu, ég tók sjálfur aðeins eftir því en var auðvitað of lítill til að skilja hvers vegna. Hún var hrædd um að við yrðum handsömuð og færð aftur heim og hafði ríka ástæðu til að óttast um líf sitt.“

Sá snjó í fyrsta skipti

Ahd gerir örstutt hlé á frásögninni. Hann vill taka það fram að móður sinni sé umhugað um að hann tali um föður sinn af virðingu.

„Hún vill að ég muni að þótt að hann hafi verið slæmur eiginmaður, þá hafi hann ekki endilega verið slæmur faðir. Mamma hafði þolað heimilisofbeldi í 17 ár og reynt að flýja áður. Hún fór án okkar til Íslands, buguð af ofbeldinu. Hún sneri aftur og ætlaði að þola ofbeldið til að geta verið með okkur. Það gerði hún, allt þar til faðir minn lagði hendur á systur mína. Þá varð mælirinn fullur.“

Móðir Ahds bað bróður sinn, Salmann Tamimi, um aðstoð. Hann var búsettur á Íslandi með fjölskyldu sinni og var meira en tilbúinn til þess að koma systur sinni til hjálpar. Ahd segir undirbúning að flóttanum hafa tekið tvær vikur. Sá tími hafi farið í að undirbúa komu fjölskyldunnar til Íslands og að flytja föt og persónulega muni í laumi frá heimilinu. Koman til Íslands er ógleymanleg. Ahd sá snjó í fyrsta skipti og í huga fimm ára gamals drengs hljómaði íslenskt tungumál framandi.

„Frændi minn Salmann Tamimi tók á móti okkur á flugvellinum og það urðu fagnaðarfundir. Ég hafði aldrei séð snjó áður og nú keyrðum við í gegnum hvítar og skærar snjóbreiður. Með í för var lítill frændi minn sem talaði íslensku og ég hugsaði með mér að svona ætti fólk nú ekki að tala,“ segir Ahd og hlær.

Fjölskylda Ahds bjó í íbúð frænda hans um tíma. Þau gistu í kojum og fyrstu kvöldin var stundum grátið. „Auðvitað söknuðum við pabba. Þetta var erfitt.“

Fjölskylda Ahds á ströndinni
Borðuðu á gólfinu

Fyrsta heimili fjölskyldunnar var á Álfhólsvegi í Kópavogi. Fyrsta daginn sat fjölskyldan í húsgagnalausri íbúð og borðaði brauð með smjöri á gólfinu. Nágrannar þeirra reyndust þeim vel, gáfu þeim húsgögn og aðstoðuðu þau við að ná áttum í nýju hverfi í nýju landi.



„Við áttum ekki neitt í fyrstu. Mamma sendi systkini mín út í búð og við borðuðum brauð með smjöri á gólfinu. Nágranni okkar, eldri maður og íbúi í húsinu, gaf okkur húsgögn og reyndist okkur að öllu leyti mjög vel. Þótt þetta hefði verið svona þá man ég ekki eftir því að hafa verið svangur eða hafa átt minna en önnur börn á leikskólanum. 



Ahd hóf skólagöngu sína á leikskóla fljótlega eftir komu fjölskyldunnar til landsins. Þar lærði hann fyrstu orðin í íslensku og á góðar minningar úr starfinu. „Það er erfitt að bera nafnið mitt fram og mamma hafði miklar áhyggjur af því. En svo skiptir það engu máli, mér fannst gaman að teikna og leikskólakennararnir náðu þannig til mín. Áður en langt var um liðið hafði ég beðið einn þeirra um að rétta mér rauðan lit,“ segir hann kankvís. 




Ahd lærði einnig íslensku af fjölskylduvinum og nágrönnum og var fljótur að læra. Fram eftir aldri aðstoðaði hann móður sína þegar hana skorti orð. „Þegar hún var í háskóla og ég í grunnskóla fór ég stundum yfir ritgerðirnar hennar. 




Skólaganga mín er alfarið hér á Íslandi, öfugt við systur mínar 
og bróður sem höfðu reynslu af skólakerfinu úti í Palestínu og segja kerfið þar strangara.“ 



Ahd hóf nám í Kópavogsskóla og undi sér vel. Honum sóttist námið ágætlega. Hann átti vini og fannst hann hluti af heildinni. Hann segist hafa verið heppinn. Þá gerist það að móður hans hefur tekist að safna fyrir útborgun í íbúð. Þau flytja í blokkaríbúð í Engihjalla og Ahd hefur nám í Hjallaskóla. 



„Í Hjallaskóla var allt annað umhverfi. Ég vil ekki segja að þetta hafi verið slæmt hverfi, en þar ríkti ólíkur andi að mörgu leyti. Krakkarnir voru að minnsta kosti ekki eins vingjarnlegir og ég var og því lenti ég fljótt í árekstrum.“ 


Ahd með systur og móður.
Eftir hryðjuverkaárásina

Ahd fór að finna fyrir áreiti og stríðni. Í byrjun var þetta lítið en það hélt þó áfram og vatt upp á sig þar til það fór ekki á milli mála að um einelti var að ræða. Ég fór að finna fyrir því að ég væri öðruvísi. Ég varð hálf utangarðs og leið ekkert sérlega vel.



Eineltið átti eftir að versna til muna. Það gerðist í kjölfar hryðjuverkaárásanna á tvíburaturnana í New York

„Þá kom holskeflan yfir mig. Eftir árásirnar varð ég að skotmarki og eineltið náði hámarki. Þá var ég kallaður sandnegri og spurður hvort pabbi væri hryðjuverkamaður,“ segir Ahd frá og segir fordóma á Íslandi í garð araba hafa verið fremur litla og ómarkvissa áður en árásirnar voru gerðar.

„Ég skildi ekkert í þessu og vissi ekki hvernig ég átti að taka þessum fordómum því árásirnar höfðu ekkert með mig og minn bakgrunn að gera og ég skildi bara alls ekki hvernig krakkarnir tengdu þetta við mig. En þau gerðu það. Þetta hafði mikil áhrif á mig, sjálfsvirðingin minnkaði og ég hætti að geta treyst fólki. Eineltið var það gróft." 

Hann segir krakkana hafa beitt sig margvíslegu andlegu ofbeldi. Hann rifjar upp minningu. Stelpa í bekknum hafði fengið nýjan penna með fallegu skrauti og var að sýna bekkjarfélögunum pennann þegar hún missti hann í gólfið. Ég tók hann upp og rétti henni hann. Hún sneri þá upp á sig og sagði: „Nei takk, þú mátt bara eiga hann. Svo stunduðu þau það líka að vingast við mig í stuttan tíma, en bara til þess að verða vitni að einhverju eða vita eitthvað um mig sem þau gátu notað gegn mér. Ég átti þó eina vinkonu sem reyndist mér vel, hana Lilju Gunnarsdóttur sem er enn vinkona mín í dag.“



Ahd fékk hvíld frá eineltinu í unglingadeild skólans. Þá var krökkunum skipt í fög eftir getu í A, B, C og D. „Ég var oftast í A- eða B-hópi. Þeir sem lögðu mig í einelti voru hins vegar oftast í C og D. “ 



Ahd er nýútskrifaður leikari og leitar nú tækifæra í London.Mynd/GDPhotoArts
Dorrit reykti vatnspípu

Lífið í Engihjalla þótti Ahd gott þrátt fyrir allt. Á þessum tíma hafði móðir hans hætt að vinna í slítandi störfum og var komin í háskólanám. Ahd segir hana hafa verið sér sterka fyrirmynd. Mamma sýndi okkur hvað viljastyrkur og metnaður er. Hún var alltaf vöknuð á undan okkur til að læra og gerði okkur stolt þegar hún lauk námi.“ 



Eitt kvöldið heimsóttu forsetahjónin Ólafur Ragnar og Dorrit Moussaief fjölskylduna í Engihjallann.

„Heimsóknin er ógleymanleg. Mamma hafði eignast forsetafrúna fyrir vinkonu og hún kom í kvöldmat til okkar í Engihjallann. Mig minnir að við höfum boðið upp á hlaðborð af arabískum réttum. Ólafur Ragnar sagði mér að hlúa að upprunanum, það væri mikilvægt og hrósaði mér fyrir íslenskukunnáttuna. Dorrit fékk að prófa vatnspípuna hennar mömmu og þetta var alveg ótrúlega skemmtilegt kvöld.“




Fann vináttu í hópi víkinga 


Það var ekki bara eineltið sem olli Ahd vanlíðan. Hann var líka að uppgötva samkynhneigð sína. „Það var líka hluti af vanlíðan minni. Ég býst við því að það sé alltaf erfitt að uppgötva að maður er öðruvísi. Sem betur fer á ég góða fjölskyldu sem tók þessu vel. 



Lánið fór svo að leika við mig. Eftir menntaskólann varð ég heppinn og datt inn í stóran vinahóp. Margir þeirra tilheyra víkingafélaginu Rimmugýgi. 



„Við vorum flutt úr Engihjallanum í Hafnarfjörð þar sem eru haldnar víkingahátíðir á sumrin. Þá er grillað kjöt yfir opnum eldi og ég hafði eiginlega gengið á lyktina af því og rambað inn á hátíðina fyrir tilviljun. Ég sá þessa krakka í búningum með vopn og hreifst af, ég er svo innilegt nörd. Þau hafa reynst mér sem önnur fjölskylda. Svo fordómalaus og tóku mér eins og ég er.“ 



Ýtti upprunanum frá sér

Ahd hefur aldrei farið til Palestínu og segist ekki hafa lagt rækt við menningararf upprunalandsins. Margt hafi orðið til þess. 



„Ég held að það sé óumflýjanlegt að ég fari einhvern tímann. Ég get samt ekki flaggað kynhneigð minni þar. Það er margt í lífi mínu sem hefur orðið til þess að ég hef afneitað þessum hluta af sjálfum mér. Eineltið er þar veigamikil orsök. Ég hef alltaf þráð að vera Íslendingur í húð og hár en ég á auðvitað að geta verið bæði stoltur Íslendingur og stoltur af uppruna mínum. En ég forðaðist upprunann. Allt arabískt hafði neikvæða tengingu fyrir mér. Eineltið og tengingin sem krakkarnir höfðu gert við hryðjuverk, og ekki síst ofbeldið sem henti mömmu. Allt þetta hlóðst upp innra með mér og gerði það að verkum að ég ýtti upprunanum frá mér.“



Hryðjuverkin í París hafa enn á ný sett af stað umræðu um múslima. Þótt að fordóma verði vart segir Ahd aukna umræðu til góðs og að hann verði var við stækkandi hóp víðsýns fólks sem gerir sér grein fyrir margbreytileikanum og falli ekki í pytt fordóma. 



„Það hefur margt breyst á mínum uppvaxtarárum. Ísland er lítið land og fólkið er gott. Umræðan hefur þróast og ég finn að það er meiri mótstaða gegn fordómum. Meiri samúð, meiri þekking. Í Bretlandi þar sem ég bý núna er mikil umræða um Íslam og fólk frá löndum múslima. Það er svo mikið af fólki frá þessum löndum hér og umræðan mjög frjó vegna atburðanna voðalegu í París. Ótrúlegt en satt þá ríkir hér almenn sátt við fjölbreytileikann og mér finnst umræðan þroskuð. Sú sátt á eftir að verða á Íslandi. Það er ég viss um. Hér gerir fólk sér grein fyrir fjölbreytileikanum og getur gert greinarmun á mismunandi hópum frá mismunandi löndum. Eftir því sem fjölbreytileiki samfélaga eykst, því meiri þekkingu öðlumst við á þeim sem búa með okkur. Það verður betra samfélag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×