Innlent

Byggð loks að rísa á svæði Gusts

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
"Það er allt til staðar í þessu nýja hverfi, það er miðsvæðis og öll þjónusta er fyrir hendi,“ segir bæjarstjóri Kópavogs.
"Það er allt til staðar í þessu nýja hverfi, það er miðsvæðis og öll þjónusta er fyrir hendi,“ segir bæjarstjóri Kópavogs. Mynd/Kópavogsbær
„Ég er þess fullviss að Glaðheimahverfið verður eftirsótt fyrir fjölskyldufólk strax frá fyrsta degi,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri í tilkynningu frá Kópavogsbæ. Í Glaðheimum var áður hesthúsabyggð Gusts sem verktakar keyptu upp á árunum 2005 og 2006. Kópavogsbær keypti landið fyrir 3,3 milljarða króna í maí 2006.

Bærinn seldi byggingarréttinn til tveggja félaga fyrir 6,5 milljarða króna. Innborgun þeirra var samtals 720 milljónir sem þeir fengu endurgreiddar með verðbótum er þeir skiluðu bænum lóðunum eftir hrunið. Kostnaður við það var um einn milljarður.

Áætlað er að Glaðheimar byggist á næstu árum í nokkrum áföngum. Alls verða þar þrjú hundruð íbúðir í fjölbýli. Tíu lóðir fyrir 260 íbúðir í austurhluta Glaðheima eru nú til umsóknar. Lóðirnar verða byggingarhæfar í júlí. Glaðheimar eru við Lindahverfi, austan Reykjanesbrautar. Þéttleiki byggðarinnar á að vera mikill og lögð er áhersla á almannarými og góðar almenningssamgöngur. „Þá leggjum við ríka áherslu á hönnun og útlit í uppbyggingu hverfisins þannig að útkoman verður glæsilegt hverfi,“ segir Ármann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×