Innlent

Sláturleyfishafar innkölluðu kjötið sjálfir en ekki við segir Matvælastofnun

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Enn er deilt vegna magns díoxíns í kjöti úr Engidal við Skutulsfjörð.
Enn er deilt vegna magns díoxíns í kjöti úr Engidal við Skutulsfjörð. Fréttablaðið/Vilhelm
„Samkvæmt gögnum hjá Matvælastofnun tóku sláturleyfishafar sjálfir ákvörðun um að innkalla kjöt af gripum af þessu svæði í varúðarskyni,“ segir Kjartan Hreinsson, dýralæknir hjá Matvælastofnun, um fullyrðingar Gísla Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra á Ísafirði, varðandi díoxínmengun í búpeningi í Engidal fyrir um fjórum árum.

„Ástæða þess að slátra þurfti búpeningi í Engidal var bannið sem MAST hafði sett á kjötið og uppnámið sem MAST olli með því að innkalla íslenskt lambakjöt frá Evrópu,“ sagði Gísli í Fréttablaðinu í gær.

„Matvælastofnun setti dreifingarbann á afurðir frá svæðinu meðan unnið var að rannsókn málsins. Þegar niðurstöður sérfræðihópsins lágu fyrir tóku bændurnir sjálfir ákvörðun um að slátra búfénu,“ segir Kjartan. Matvælastofnun beri skylda til að upplýsa og tilkynna um varasöm matvæli á markaði. „Einnig í varúðarskyni ef grunur er um að matvæli uppfylli ekki skilyrði matvælareglugerða og séu ekki örugg til neyslu.“

Þá gerir Kjartan athugasemd við orð Gísla um að dönsk rannsókn hafi ekki sýnt díoxín yfir viðmiðunarmörkum úr sýnum úr Engidal. Vísar Kjartan í skýrslu sérfræðingahóps. Þar segir meðal annars að sýni bendi „sterklega til þess að að mjólkurafurðir og nautgripir frá Efri-Engidal eigi ekki að fara á markað og hafi ekki átt að fara á markað“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×