Innlent

Heyrnarlaus börn fylgi jafnöldrum sínum

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Grunnskólakennari, sem kennir heyrnarlausum börnum, segir að það muni auka möguleika barnanna til menntunar töluvert að láta þau hafa námsefni á táknmáli, en til stendur að vinna við það hefjist á næsta ári. Heyrnarlaus börn komi þá til með að fylgja frekar námsframvindu jafnaldra sinna. 

Í fréttum okkar undanfarið höfum við greint frá stöðu heyrnalausra barna á Íslandi. Hingað til hafa þau ekki fengið námsefni táknmáli, sem er þeirra móðurmál, en menntamálaráðherra hefur nú gert ráð fyrir tíu milljóna króna aukafjárframlagi til Samskiptamiðstöðvar svo hægt sé að hefja vinnu við að framleiða námsefni við hæfi.

Hjördís Anna Haraldsdóttir hefur kennt heyrnarlausum börnum í Hlíðaskóla síðastliðin níu ár. Hún segir það breyta miklu fái börnin námsefni á táknmáli. Þá geti þau til að mynda lært sjálf heima. 

„Þetta þýðir fleiri möguleikar fyrir nemendur. Kennarar verða meðvitaðri og öruggari í sinni kennslu. Og börnin fylgja þá frekar jafnöldrum sínum í námi,“ Segir Hjördís. 

Hún segir breytinguna löngu tímabæra. Það séu mannréttindi barnanna að fá námsefni á sínu móðurmáli.

„Áhersla á menntun er alltaf ofboðslega mikil vegna þess að hún hefur svo mikil áhrif á lífsgæði í framtíðinni. við erum þar með að auka möguleika þessara nemenda til þess að læra og við erum að auka aðgengi þeirra. Það hefur verið svolítið hingað til þannig að nemendurnir hafa þurft að aðlaga sig að okkar samfélagi, okkar námsefni, okkar skóla. Nú erum við kannski að fara að koma til móts við þennan hóp sem lærir í gegnum táknmál,“ segir Hjördís Anna.

Milljónirnar tíu dugi þó varla fyrir öllu verkefninu þó þær séu ágætis byrjun.

„Mér finnst þetta fín byrjun. Ég veit þetta er ekki nóg, langt frá því, en ég fagna þessu samt. Þetta er ávkeðin viðurkenning á þessum vanda,“ segir Hjördís Anna. 


Tengdar fréttir

"Þetta var það eina í stöðunni“

Tvær íslenskar barnafjölskyldur fluttu til Danmerkur í sumar vegna skorts á þjónustu við heyrnarlaus börn. Annar fjölskyldufaðirinn segir að yfirvöld bregðist of hægt við og að annað hafi ekki verið í stöðunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×