Enski boltinn

Wayne Rooney verður aftur með United um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney.
Wayne Rooney. Vísir/Getty
Wayne Rooney, fyrirliði Manchester United, er orðinn leikfær og klár í leik liðsins á móti Southampton í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

Rooney er búinn að vera að glíma við tognum aftan í læri og gat ekki spilað á móti Liverpool eða á móti PSV Eindhoven. United vann 3-1 sigur á Liverpool en tapaði á móti hollensku meisturunum þrátt fyrir að komast yfir í leiknum.

Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, gaf það út á blaðamannafundi í dag að Rooney sé búinn að ná sér af meiðslunum. Phil Jones er líka allur að koma til en hann var að ná sér eftir blóðtappamyndun.

„Meiðsli Luke Shaw eru mikið áfall fyrir liðið en Rooney er leikfær og Joen hefur æft með strákunum að undanförnu," sagði Louis van Gaal á blaðamannafundi í dag en Manchester Evening News sagði frá þessum góðu fréttum fyrir Manchester United menn.

„Wayne er klár. Hann missti aðeins út eina viku. Við ætluðum samt ekki að taka neina áhættu með hann," sagði Van Gaal.

Wayne Rooney er enn að bíða eftir fyrsta marki sínu í ensku úrvalsdeildinni en honum tókst ekki að skora í fyrstu fjórum leikjum sínum.

Rooney skoraði aftur á móti þrennu á móti Club Brugge í Meistaradeildinni og bætti markamet enska landsliðsins í landsleikjatörninni á dögunum. Hann hefur nú skorað 50 mörk í 107 landsleikjum.

Manchester United mætir Southampton á St Mary's en þetta verður fyrsti leikur liðsins eftir að Luke Shaw fótbrotnaði í Meistaradeildarleik á móti PSV Eindhoven.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×