Innlent

Krufning fer fram í dag vegna mannsláts við Hverfisgötu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá vettvangi hnífstungunnar í nóvember.
Frá vettvangi hnífstungunnar í nóvember. Mynd/Þorgeir Ólafsson
Krufning fer fram í dag á karlmanni frá Litháen sem lét lífið á sjúkrahúsi í Reykjavík um helgina. Í kjölfarið mun koma í ljós hvert framhaldið verður er varðar aðkomu lögreglu að málinu að sögn Kristjáns Inga Kristjánssonar yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hvort um veikindi eða slys hafi verið að ræða eða maðurinn látist af mannavöldum.

Neyðarlínunni barst símtal síðastliðinn föstudag vegna mannsins sem þá var meðvitundarlaus í húsi við Hverfisgötu. Maðurinn komst aldrei til meðvitundar og lést á sjúkrahúsinu.

Fimm voru á vettvangi er sjúkrabíl og lögreglu bar að garði við Hverfisgötu og voru þau færð til skýrslutöku. Öllum fimm var sleppt að skýrslutöku lokinni en einn þeirra hringdi í neyðarlínuna og tilkynnti um ástand mannsins.

Hnífstunga í sama húsi í nóvember

Umrætt hús við Hverfisgötu var til umfjöllunar síðast í nóvember vegna lífshættulegrar hnífstunguárásar. Á síðustu stundu tókst að bjarga lífi mannsins með uppskurði á gjörgæsludeild Landspítalans og var upptaka af uppskurðinum meðal annars sýnd í Kastljósi.

Einn maður er í gæsluvarðhaldi vegna hnífstunguárásarinnar en málið er rannsakað sem tilraun til manndráps.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×