Innlent

72 prósent ríkisstarfa eru á höfuðborgarsvæðinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/Byggðastofnun
Alls voru ríkisstörf 22.548 stöðugildi við áramótin 2013 til 2014. Stöðugildi kvenna voru 14.141 og stöðugildi karla 8,425. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem byggðastofnun gerði og kynntar voru á ársfundi stofnunarinnar í Vestmannaeyjum í apríl.

Þarna eru þó ekki bara tiltekin stöðugildi á vegum opinberra hlutafélaga, sem voru 18.718, heldur einnig stöðugildi á vegum stofnana og aðila sem njóta framlaga frá ríkinu.

Höfuðborgarsvæðið er hið eina á landinu sem er með hærra hlutfall opinberra starfa, en hlutfall af íbúafjölda landsins. Alls eru 72 prósent opinberra starfa á höfuðborgarsvæðinu, en 64,1 prósent af Íbúafjöldanum.

Það svæði sem næst kemur er Norðurland vestra með 2.1 prósent stöðugildanna en 2.2 prósent íbúafjöldans. Þar næst eru Vestfirðir með 1,8 prósent stöðugildanna en 2.1 prósent íbúafjöldans. Hlutfallslega er langlægsta hlutfallið á Suðurnesjum en þar eru 3.9 prósent stöðugildanna en 6.6 prósent íbúafjöldans. Á Austurlandi eru 2,4 prósent stöðugildanna en 3,8 prósent íbúafjöldans.

Í niðurstöðunum segir að um það bil 70 prósent opinberra útgjalda hér á landi komi frá ríkinu, en um 30 prósent frá sveitarfélögunum. „Þessu er þveröfugt farið annars staðar á Norðurlöndunum. Af því leiðir að stærri hluti opinberra starfa á Íslandi eru á vegum ríkisins, beint og óbeint, en á hinum Norðurlöndunum og því skiptir meira máli hér en þar hvar ríkisstörfin eru staðsett.“

Frekari upplýsingar má sjá á vef Byggðastofnunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×