Innlent

Dæmi um að loftbyssa hafi verið notuð í Hagaskóla

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Börn í Hagaskóla hafa orðið fyrir hótunum og ofbeldi í skólanum síðustu mánuði. Lögregla hefur verið kölluð til og eru dæmi um að loftbyssa hafi verið notuð. Skólastjórinn segir unnið að lausn málsins en að ákveðið úrræðaleysi sé til staðar í málum sem þessum.

Frá því síðasta haust hafa nokkur atvik komið upp í skólanum þar sem nemendum er hótað eða þeim ógnað. „ Þetta hafa verið atvik frá hótunum um að sníkja peninga, notkun á til dæmis loftbyssum og svo bara svona hótanir,“ segir Ingibjörg Jósefsdóttir skólastjóri í Hagaskóla.

Hún segir skólastjórnendur fyrst hafa fengið upplýsingar um það síðasta haust að nemendum við skólann hafi verið hótað. Gerendurnir eru nokkrir og aðeins hluti þeirra nemendur við skólann. Málið hefur undið nokkuð upp á sig og atvikin orðið alvarlegri. „Það var barn hér fyrir helgi sem að sá á,“ segir Ingibjörg.

Þá kom til þess í vikunni að faðir drengs sem hefur verið ógnað í skólann til að ræða við gerandann og sauð upp úr. Lögreglan hefur fengið tilkynningar vegna ógnanna í garð nemenda við skólann. Hún hefur mætt á staðinn og rætt við hluteigandi aðila og sent tilkynningar til Barnaverndaryfirvalda. Skólastjórnendur hafa unnið með þessum aðilum ásamt fleiri fagaðilum að því að leysa málið. Ingibjörg segir hægt að vísa nemendum úr skóla en það hafi ekki verið gert í þessu máli. Hún segir ákveðið úrræðaleysi þegar kemur að málum sem þessum.

Hún segir nokkuð um að foreldrar hafi samband við skólann og margir þeirra hafi áhyggjur af stöðunni. „ Við líka hvetjum foreldra til þess að hafa samband við okkur, “ segir Ingibjörg Jósefsdóttir skólastjóri Hagaskóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×