Enski boltinn

Sánchez: Vonbrigði að hafa ekki unnið fleiri titla

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sánchez fagnar marki sínu í bikarúrslitaleiknum gegn Aston Villa.
Sánchez fagnar marki sínu í bikarúrslitaleiknum gegn Aston Villa. vísir/getty
Alexis Sánchez segir að það séu vonbrigði að Arsenal hafi ekki unnið fleiri titla en enska bikarmeistaratitilinn á nýliðnu tímabili.

„Ég hefði viljað vinna ensku úrvalsdeildina eða spila í úrslitum Meistaradeildar Evrópu,“ sagði Chile-maðurinn sem skoraði 25 mörk fyrir Arsenal á sínu fyrsta tímabili hjá félaginu.

„Við erum með fullt af hæfileikaríkum leikmönnum svo það eru vonbrigði að ná ekki betri árangri en raun bar vitni.

„Þetta var ágætis tímabil en jafnframt svolítið súrsætt,“ sagði Sánchez en Arsenal tapaði fyrir Southampton í fyrsta leik sínum í enska deildarbikarnum og féll úr leik fyrir Monaco í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Sánchez, sem verður í eldlínunni með Chile í Suður-Ameríkukeppninni á heimavelli síðar í þessum mánuði, er þó ánægður með þróunina á sínum leik.

„Ég tók stórt skref fram á við. Ég er að þróast sem leikmaður, ég skapa og skora mörk,“ sagði Sánchez sem kom til Arsenal frá Barcelona fyrir 35 milljónir punda síðasta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×