Innlent

Túlka ber reglur um vopnaburð lögreglu þröngt

Heimir Már Pétursson skrifar
Innanríkisráðherra segir enga ákvörðun liggja fyrir um aukin vopnaburð lögreglu umfram það sem verið hafi og túlka beri heimildir hennar til notkunar vopna þröngt. Formaður Samfylkingarinnar segir vopnaburð lögreglu geta aukið á óöryggi almennings og lögreglu.

Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar hóf sérstaka umræðu um vopnaburð lögreglunnar á Alþingi í dag í ljósi þeirra frétta sem hafa verið af þeim málum að undanförnu. Hann eins og flestir sem tóku til máls, hældi Ólöfu Nordal innanríkisráðherra fyrir hvernig hún hefði almennt haldið á þessum málum meðal annars með birtingu reglna um vopnaburð lögreglu. Gagnsæi væri mikilvægt því aukinn vopnaburður gæti dregið úr öryggi almennings og lögreglu.

„Þau geta kallað á harðari heim. Þau geta kallað á harkalegri viðbrögð glæpamanna og það er ekkert gefið um það að við upplifum öll öryggi þegar við sjáum þungvopnaða lögreglumenn,“ sagði Árni Páll.

Innanríkisráðherra ítrekaði ákveðin grundvallaratriði í hennar huga.

„Almenn löggæsla er vopnlaus í störfum sínum. Það er engin breyting á því. Engin ákvörðun er heldur fyrirliggjandi um aukinn vopnaburð lögreglu. Þetta skiptir máli,“ sagði Ólöf.

Þingmenn voru almennt sammála um að styrkja bæri lögregluna eftir milljarða niðurskurð til hennar frá hruni en mikilvægt væri að skýrar reglur sem giltu um vopnaburð hennar, hvort sem væri í bílum eða annars staðar.

Innanríkisraðherra sagði lögreglu sett mörk um valdbeitingu í lögreglulögum og reglum útgefnum af ráðherra. Í dag væru skammbyssur í sex bílum á höfuðborgarsvæðinu og nokkrum á landsbyggðinni.

„Ekki er þörf á að breyta reglunum á meðan breyttur geymslustaður takmarkast við þann fjölda bifreiða sem nú er. En telji lögregluyfirvöld nauðsynlegt að fjölga þeim bifreiðum þar sem vopn eru geymd í læstum hirslum þannig að ekki sé einungis um sérstök tilfelli að ræða heldur nær því að vera almenn regla mun reyna mjög á gildissvið þessara regla. Enda eru á þeim ytri mörk sem ber að túlka þröngt,“ sagði Ólöf Nordal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×