Innlent

Hafið við Ísland beitarland fyrir lax hvaðanæva að

Svavar Hávarðarsson skrifar
Lax sem veiddist með makríl var úr útlendum ám.
Lax sem veiddist með makríl var úr útlendum ám. mynd/NASF
Rannsóknarniðurstöður sýna að hafið við Ísland er mikilvægt beitarsvæði fyrir Atlantshafslaxinn, sérstaklega fyrir lax frá Bretlandseyjum og suðurhluta Evrópu.

Nýlega kom út grein í vísindaritinu ICES Journal of Marine Science um uppruna og lífssögu 186 laxa sem veiddust á Íslandsmiðum sem meðafli í makrílveiðum í íslenskri fiskveiðilögsögu árin 2007 til 2010. Nýttur var gagnagrunnur um erfðir laxastofna í 284 evrópskum ám til að greina með erfðatækni uppruna laxa í veiðinni.

Í ljós kom að 68 prósent sýnanna voru rakin til suðursvæðis Evrópu (meginlands Evrópu og Bretlandseyja), 30 prósent voru frá norðurhluta Evrópu (Skandinavíu og Rússlandi) en einungis tvö prósent laxanna voru frá Íslandi. Niðurstöðurnar benda til þess að hafsvæðin suður og austur af Íslandi séu mikilvæg beitarsvæði fyrir Atlantshafslaxinn, sérstaklega fyrir lax frá Bretlandseyjum og suðurhluta Evrópu.

Lágt hlutfall laxa af íslenskum uppruna kom á óvart og bendir til að íslenskur lax noti önnur beitarsvæði, en einnig eru íslenskir laxastofnar ekki stórir í samanburði við allan laxastofninn í Norður Atlantshafi.

Greinina rituðu vísindamenn á Veiðimálastofnun, Matís og Hafrannsóknastofnun. Fyrsti höfundur er Kristinn Ólafsson en greinin er hluti af doktorsverkefni hans en frá Veiðimálastofnun tóku Sigurður Már Einarsson og Sigurður Guðjónsson þátt í verkefninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×