Innlent

Tólf þúsund lítrar af skipaolíu um borð í Perlu

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Unnið er að því að loka loftgötum til að koma í veg fyrir að olían leki í sjóinn.
Unnið er að því að loka loftgötum til að koma í veg fyrir að olían leki í sjóinn. vísir/vilhelm
Um tólf þúsund lítrar af skipaolíu eru um borð í sanddæluskipinu Perlu sem sökk í Reykjavíkurhöfn í morgun. Þá eru um 800 lítrar af glussa og smurolíu en unnið er að því að loka loftgötum til að koma í veg fyrir að olían leki í sjóinn.

Í tilkynningu frá Faxaflóahöfnum segir að slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu verði til taks, fari olían að leka. Þá hafi mengunarvarnargirðingu verið komið fyrir. Fulltrúar Björgunar og Stálsmiðjunnar muni svo fljótt sem verða megi leggja fyrir Faxaflóahafnir áætlun um hvernig ná megi skipinu upp af hafsbotni. Ætla megi að framkvæmd og undirbúningur verkefnisins taki nokkurn tíma.

„Það er nokkuð ljóst að það verður ekki í dag og ekki á morgun. En við vonum bara að þetta taki sem skemmstan tíma en það er ljóst að þetta lítur út fyrir að vera viðamikið verkefni,“ segir Gísli Gíslason hafnarstjóri í samtali við Vísi.

Þá segir hann engar upplýsingar liggja fyrir um tildrög óhappsins, en lögregla annast rannsókn málsins.


Tengdar fréttir

„Höfðum ekki undan“

Ekki liggur fyrir hvenær dælt verður úr sanddæluskipinu Perlu sem sökk í Reykjavíkurhöfn í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×