„Ég held að þetta hafi verið síðasta lagið sem ég samdi fyrir þessa plötu. Ég áttaði mig á að allt fram að þessu lagi hafði ég verið mjög melankólískur, enda nýkominn úr löngu sambandi svo það getur hafa haft áhrif. Þannig að ég ákvað að lokalagið yrði tekið með trompi, skellti inn trompeti og vildi hafa það eins energískt og mögulegt er,“ segir Þórarinn Guðnason, gítarleikari Agent Fresco um lagið.
Arnór Dan sá um að fylla líflega laglínuna orðum og segist vanur því að elta tilfinningarnar sem spretta innra með honum þegar hann heyri laglínuna og hljóðfærin saman hverju sinni. „Þessu lagi gæti ég líkt við mína persónulegu flóttaleið aftur í fortíðina, aftur í sakleysið,“ útskýrir Arnór. „Þetta lag er bleikt ský til að tylla sér á, smá afturhvarf til notalegrar nostalgíu. Þegar ég flyt það live, finnst mér ég aftur orðinn krakki. Þetta er verulega skemmtilegt, líkt og sést í myndbandinu.“
Arnór segist alsæll með myndbandið, en leikstjórinn Baldvin Z sá um að leikstýra því. „Ég er mjög spenntur að segja svo frá því að tónleikarnir voru allir teknir upp og verða sýndir á Stöð 2 síðar á árinnu,“ segir hann að lokum.
Myndbandið má sjá hér fyrir neðan.