Enski boltinn

Þorvaldur: Óþolandi að mæta framherjum eins og Costa

„Hann er týpískur framherji sem er hundleiðinlegt að mæta, hann spilar á línunni og gerir hvað sem hann getur til þess að berjast. Hann vill slást og vera í einhverju svona basli,“ sagði Þorvaldur Örlygsson um Diego Costa, framherja Chelsea, í Messunni í gær.

Strákarnir í Messunni tóku fyrir hegðun Diego Costa í stórleik Chelsea og Arsenal um helgina en hann hefur verið ákærður af enska knattspyrnusambandinu fyrir að slá Laurent Koscielny í leiknum.

Þorvaldur og Ólafur Páll Snorrason voru Hjörvari Hafliðasyni innan handar í Messunni í gær þar sem 6. umferð ensku úrvalsdeildarinnar var gerð upp.

„Það er óþolandi að mæta leikmönnum eins og honum en það er gott að hafa hann í sínu liði þótt ég haldi að hann komist ekki alltaf upp með þetta, hann fer að fá rauð spjöld. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við sjáum þetta frá honum, hann hefur alltaf verið erfiður og verður svona áfram,“ sagði Þorvaldur.

Ólafur Páll sagði að hann væri þrátt fyrir allt klókur leikmaður.

„Það er gert í því að reyna að fiska hann útaf en hann er klókur. Það er ekkert frekar hægt að kalla hann svindlara frekar en aðra leikmenn, aðrir leikmenn eru líka að reyna að fá andstæðinginn útaf eða að reyna að fiska aukaspyrnur og víti.“

Nánari umfjöllun um Costa má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Zouma: Við vitum að Costa reynir að svindla

Kurt Zouma, franski miðvörður Chelsea, segir að leikmenn liðsins viti af því að Diego Costa reyni að svindla í leikjum í von um að andstæðingarnir missi einbeitinguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×