Enski boltinn

Rodgers: Þurfum bara eina góða frammistöðu til að komast á skrið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brendan Rodgers.
Brendan Rodgers. Vísir/Getty
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, er ekki búinn að loka fyrir það að Jordan Henderson og Daniel Sturridge verði með liðinu á móti Norwich á sunnudaginn. Þetta kom fram á blaðamannfundi í dag.

Jordan Henderson og Daniel Sturridge hafa báðir verið að glíma við meiðsli þótt að meiðslasaga Sturridge sé miklu lengri. Sturridge fór meðal annars í meðferð til Bandaríkjanna á sínum tíma en Liverpool sendi Henderson þangað líka og er fyrirliðinn nýkominn heim.

Brendan Rodgers var spurður út í pressuna sem er á honum eftir slaka frammistöðu Liverpool-liðsins í byrjun tímabilsins.

„Þessi pressa er bara fylgifiskur knattspyrnustjórastarfsins. Ég reyni alltaf að einbeita mér að því sem ég get stjórnað. Leikmennirnir sem eru að koma til baka eftir meiðsli munu hjálpa okkur við að bæta frammistöðuna," sagði Brendan Rodgers meðal annars á blaðamannafundinum í dag en Neil Jones hjá Liverpool Echo fylgdist vel með fundinum á twitter.

 

„Ég veit að við getum spilað betur en við höfum verið að gera. Ég er samt þokkalega rólegur yfir þessu því ég trúi því að liðið fari að spila betur," sagði Rodgers.

Liverpool er eins og er í 10. sæti með 7 stig af 15 mögulegum en liðið vann 1-0 sigur í fyrstu tveimur leikjum sínum. Síðan þá hefur liðið aðeins náð í eitt stig.

„Liðið þarf bara eina góða frammistöðu til að komast á skrið," sagði Rodgers.

Liverpool hefur aðeins skorað þrjú mörk í fyrstu fimm umferðum ensku úrvalsdeildarinnar þar af bara eitt mark í síðustu þremur leikjum sínum.

„Þetta snýst bara um að halda ró sinni. Við þurfum að leggja áherslu á að koma okkur í betri færi og ég veit að við komust þangað," sagði Rodgers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×