Innlent

Segir óbreytt framlög vonbrigði

Sæunn Gísladóttir skrifar
Engilbert Guðmundsson, framkvæmdastjóri ÞSSÍ, segir óbreytt framlög vonbrigði.
Engilbert Guðmundsson, framkvæmdastjóri ÞSSÍ, segir óbreytt framlög vonbrigði. Vísir/Stefán Karlsson
Í nýju fjárlagafrumvarpi boðar ríkisstjórnin óbreytt framlög til þróunarmála. Áfram verður miðað við að 0,21% af þjóðartekjum verði varið til málaflokksins, í stað þeirra 0,7% sem Sameinuðu þjóðirnar ætlast til að ríkar þjóðir eins og Íslendingar leggi til baráttunnar gegn fátækt í heiminum. Engilbert Guðmundsson, framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar, segir þetta vera vonbrigði. „Það er auðvitað vonbrigði að ekki skuli vera fylgt eftir áætlunum í þróunarsamvinnuáætlun um að ná 0,7% með jöfnum skrefum fram til ársins 2020," segir Engilbert.

Framlög til þróunarmála hækka vegna aukinna þjóðartekna um tæplega 460 milljónir króna og verða í heildina 4,721 milljarðar króna á næsta ári. Af þeirri fjárhæð ráðstafar Þróunarsamvinnustofnun Íslands 1,885 milljörðum króna eða um 40% af framlögunum. Utanríkisráðuneytið ráðstafar um 60% líkt og verið hefur um langt árabil, mest til Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, 560 milljónum, og til Alþjóðaframfarastofnunarinnar (IDA) rúmum hálfum milljarði.
 
Utanríkisráðherra hefur kynnt áætlun sem að gerði ráð fyrir því að á næsta ári færi hlutfallið alla vega upp í 0,23% af þjóðartekjum. Engilbert segist svo sannarlega vona að í meðförum þingsins náist það markmið alla veganna og helst meira en það.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×