Innlent

Hæstiréttur: Íslenska ríkinu heimilt að setja lög á verkföll BHM

Atli Ísleifsson skrifar
Páll Halldórsson, formaður samninganefdar BHM, kveðst ósáttur með niðurstöðuna og að BHM þyrfti nú að kanna hvort farið yrði með málið lengra, þá til Mannréttindadómstóls Evrópu.
Páll Halldórsson, formaður samninganefdar BHM, kveðst ósáttur með niðurstöðuna og að BHM þyrfti nú að kanna hvort farið yrði með málið lengra, þá til Mannréttindadómstóls Evrópu. Vísir/GVA
Íslenska ríkinu var heimilt að setja lög á verkföll BHM líkt og gert var þann 13. júní síðastliðinn. Hæstiréttur kvað upp dóm sinn í morgun og segir að dómur héraðsdómur skuli standa óraskaður.

Dóminn í heild sinni má lesa í PDF skjali hér neðan við fréttina.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að starfsemi, sem haldið hefði verið uppi á heilbrigðisstofnunum í skjóli undanþága frá verkfallsaðgerðum félaganna, hefði ekki nægt til að girða fyrir alvarlega ógn við almannaheill og réttindi alls almennings til að fá aðstoð vegna sjúkleika sem ríkinu bæri að tryggja samkvæmt stjórnarskrá. Því hafi ríkinu verið heimilt að setja lög á aðgerðirnar.

Fullreyntað ljúka deilunni með samningum

Þá segir að líta mætti svo á að fullreynt hefði verið að ljúka kjaradeilunni með samningum þegar lög voru sett. „[Íslenska ríkinu] hefði því mátt líta svo á að nauðsynlegt væri að grípa til lagasetningar til að ljúka [kjaradeilunni] enda yrði ekki séð að önnur úrræði hefðu staðið til boða.“

Páll Halldórsson segist í samtali við fréttastofu ósáttur með niðurstöðuna og að BHM þyrfti nú að kanna hvort farið yrði með málið lengra, þá til Mannréttindadómstóls Evrópu.

Fulltrúar samninganefndar ríkisins í dómssal í morgun.Vísir/GVA
Verkfall stóð í 68 daga

BHM áfrýjaði dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll þann 15. júlí til Hæstaréttar og var málið tekið fyrir á mánudaginn. Málið fékk flýtimeðferð í Hæstarétti, líkt og í Hérðsdómi Reykjavíkur.

BHM stefndi íslenska ríkinu vegna laganna sem Alþingi samþykkti í júní til að stöðva verkfallsaðgerðirnar sem höfðu þá staðið í 68 daga, en með lagasetningunni var einnig endir bundinn á verkfall Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. BHM áleit lögin brjóta í bága við stjórnarskrána sem og Mannréttindasáttmála Evrópu.

Gerðardómur með frest til laugardags

Héraðsdómur taldi ríka almannahagsmuni hafa verið fyrir því að banna verkföllin tímabundið. Var gerðardómi falið að úrskurða í kjaradeilunni ef samningar myndu ekki nást fyrir lok júlímánaðar. Gerðardóms hefur frest til laugardagsins 15. ágúst til að kveða upp úrskurð sinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×